
Gefum íslensku séns - í ferðaþjónustu
Í vetur hefur SÍMEY í auknum mæli lagt áherslu á hugmyndafræðina Gefum íslensku séns, sem Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, verkefnastjóri íslenskunáms við Háskólasetur Vestfjarða, er upphafsmaðurinn að. Grunnstefið í Gefum íslensku séns er að hvetja Íslendinga til að tala íslensku við fólk af erlendum uppruna en skipta ekki strax yfir í ensku. Einnig felst í verkefninu að fólk af erlendum uppruna, sem til dæmis vinnur þjónustustörf á Íslandi, til lengri eða skemmri tíma, hafi í störfum sínum möguleika á að læra og/eða tileinka sér einföld hugtök eða setningar á íslensku. Þannig er lögð áhersla á að samfélagið allt sé framlenging á kennslustofunni og tryggt að einhverju leyti að þeir sem vilja læra íslensku geti með öruggum hætti æft sig, t.d. með því að panta sér mat, kaffi eða annað á veitingastöðum og kaffihúsum landsins.