Hins vegar eru fyrirheit um vaxtarsamning við Þingeyjarsýslur í þessum aðgerðum og eru eyrnamerktar 90 milljónir króna á næstu þremur árum í það verkefni. Þrátt fyrir yfirlýsingar um mikinn stuðning við menntun, símenntun, framhaldsskólamenntun og háskólamenntun í mótvægisaðgerðunum, nær það ekki til skólabæjarins Akureyrar. Búast má þó við að eitthvað af öðrum aðgerðum, sem flokkast sem almennar aðgerðir eða eru bundnar við önnur svæði.
Akureyri og Eyjafjörður voru heldur ekki með í fyrstu tillögum ríkisstjórnarinnar um mótvægisaðgerðir í sumar og kallaði það á sterk viðbrögð enda ljóst að kvótaskerðingin mun koma mjög illa við svæðið. Eftir ályktanir, þrýsting og umfjöllun, m.a. í Vikudegi, hafði Kristján Möller samgönguráðherra það fram í ríkisstjórn að lengingu flugbrautarinnar á Akureyararflugvelli verður flýtt, sem felur í sér að samgönguframkvæmd sem búið var að samþykkja og fá fjárveitingu fyrir verður framkvæmd fyrr en áætlað var í samgönguáætlun.
Tillögur ríkisstjórnarinnar og fréttatilkynningu má finna með því að smella hér, en til upprifjunar verða hér raktar tillögur Eyþings frá í sumar um hvað væri brýnast að gera:
"SAMGÖNGUR: Vaðlaheiðargöng: Ráðstafað verði til verkefnisins nauðsynlegum fjármunum svo að bjóða megi framkvæmdina út þegar í haust. Göngin eru lykillinn að því að byggðirnar við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum nái að virka sem eitt atvinnusvæði þannig að t.d. fyrirhuguð stóriðja við Húsavík efli allt svæðið.
Almennt verði lögð áhersla á að samgöngum innan svæðisins verði komið í viðunandi horf m.a. með stórátaki í lagningu bundins slitlags á milli byggðakjarna.
LENGING AKUREYRARFLUGVALLAR: Þeirri framkvæmd verði flýtt með vísan til mikilvægis tilkomu alþjóðaflugvallar á Akureyri fyrir þróun ferðaþjónustu á svæðinu og þörf fiskvinnslunnar á svæðinu fyrir hagkvæmari útflutningsleið en býðst í dag.
MENNTUN OG NÝSKÖPUN: Háskólinn á Akureyri og jöfnuður til náms: Auknu fé verði varið til HA þannig að skólanum verði gert kleift að mæta þeirri menntunarþörf sem til staðar er á svæðinu og verði þess sérstaklega gætt að fjarnámsmöguleikar við skólann verði efldir stórlega. Jöfnunarstyrkir vegna framhaldsnáms verði uppfærðir í samræmi við raunkostnað og fjarskiptanetið verði fært til þess horfs að það tryggi öflugan gagnaflutning vegna náms óháð búsetu.
VAXTARSAMNINGAR OG ATVINNUÞRÓUNARFÉLÖG: Vaxtarsamningur Eyjarfjarðar verði framlengdur og framlög til hans verði aukin, auk þess sem vaxtarsamningur við Þingeyjarsýslur verði gerður. Jafnframt verði framlög til atvinnuþróunarfélaganna á svæðinu aukin verulega frá því sem nú er þannig að hægt verði að sinna þeirri sérfræðiþjónustu sem þörf verður á næstu árin.
FRUMKVÆÐI HEIMAMANNA: Lögð er áhersla á að stjórnvöld gefi alvarlega gaum þeim hugmyndum um atvinnuþróun sem einstök sveitarfélög leggja fram og kunna að vera vel til þess fallin að draga úr neikvæðum áhrifum aflasamdráttar. Sem dæmi um þetta má nefna byggingu þjónustuhafnar á NA-landi vegna olíurannsókna á sk. drekasvæði á Jan Mayen hryggnum.
OPINBER STÖRF: Heilbrigðisþjónusta: Fjármagn til uppbyggingar Fjórðungssjúkrahúss Akureyrar (FSA) verði tryggt og brugðist verði við fjárþörf til eflingar heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana á svæðinu."