Ýmsar athugasemdir varðandi hugmyndir um efnistöku í landi Hvamms

Skipulagsnefnd Akureyrar gerir ýmsar athugasemdir við hugmyndir að breyttri landnotkun á jörðinni Hvammi í Eyjafjarðarsveit, þar sem þremur hekturum lands er breytt úr landbúnaðarnotkun í efnistökusvæði, samkvæmt aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025.  

Umhverfisnefnd Akureyrar fékk erindið einnig til umfjöllunar og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í bókun skipulagsnefndar. Umhverfisnefnd bendir jafnframt á að efnistökusvæðið liggi rétt sunnan útivistarsvæðisins í Kjarnaskógi og telur nefndin því óæskilegt að þarna verði leyfð efnistaka til næstu 20 ára. Skipulagsnefnd Akureyrar gerir athugasemdir varðandi eftirfarandi atriði:

A) Rykmengun er mjög líkleg vegna eðli þeirrar vinnslu sem fyrirhuguð er á svæðinu. Þar er gert ráð fyrir að efni verði sprengt úr klöppum og síðan unnið á svæðinu. Land Hvamms liggur að stærsta og fjölsóttasta útivistarsvæði Akureyringa og því er afar mikilvægt að þeir sem það sækja verði ekki fyrir óæskilegum áhrifum af svifryksmengun sem líklega verður frá þeirri jarðefnavinnslu sem þarna á að fara fram. Því ber að setja ýtrustu skilyrði fyrir vinnslu og jafnframt að hún fari ekki fram þegar vindátt er óhagstæð með tilliti til hins fjölsótta útivistarsvæðis. Slík ákvæði ber að festa í vinnsluleyfi.
B) Hávaðamengun. Af sömu ástæðum og áður eru nefndar í lið A gerir Akureyrarkaupstaður þá kröfu m.t.t. fjölsóttasta útivistarsvæðis Akureyringa, að ströngustu kröfum varðandi hljóðvarnir verði komið fyrir umhverfis efnistökusvæði og leiðum að því.
C) Setja þarf ströng skilyrði varðandi sprengingar. Vegna nálægðar við Kjarnaskóg og gönguleiðir sem nú er búið að leggja um land Hvamms eru sprengingar óæskilegar nema á ákveðnum tímum dags og alls ekki um helgar. Akureyrarkaupstaður gerir um það kröfu að sérstakur sprengingatími verði settur í vinnsluleyfi og að magni sprengiefnis sem notað er í hverja sprengingu verði stillt í hóf.
D) Bent skal á að Svæðisskipulag Eyjafjarðar 1998-2018 hefur verið fellt úr gildi og að stefnumörkun um m.a. heildarefnistökusvæði í Eyjafirði er til umfjöllunar í samráðshópi sveitarfélaganna SSE sem nú er að störfum.

Skipulagsnefnd hefur kynnt sér gögn vegna fyrirhugaðs efnistökusvæðis í landi Hvamms í Eyjafjarðarsveit og í bókun nefndarinnar segir ennfremur: "Í umhverfisskýrslu er tekið fram að Akureyrarbær hafi slegið út af borðinu alla möguleika á að taka efni til lengingar flugvallarins úr Óshólmasvæðinu. Í framhaldi af því bendir skipulagsnefnd á að ekki er gert ráð fyrir efnistöku á Óshólmasvæðinu á þeim hluta sem tilheyrir Akureyrarkaupstað í aðalskipulagi Akureyrar 2005-2018 og heldur ekki í nýstaðfestu aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar. Hins vegar er gert ráð fyrir efnistökusvæði í Óshólmadeiliskipulaginu, eystri hluta þess innan Eyjafjarðarsveitar, sem auglýst hefur verið en ekki hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar þar sem aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar stangast á við það. Framkvæmdum við Akureyrarflugvöll var flýtt af ríkisvaldinu sem orsakaði að ekki vannst tími til að fá heimildir fyrir efnistöku á mjög svo viðkvæmu Óshólmasvæði þar sem rannsóknir á lífríki o.fl. þáttum liggja ekki fyrir. Fyrir liggur að framkvæmdin er langt komin og því ekki ástæða til að ætla að umrætt efni verði notað í nema hluta þess verkefnis í framtíðinni."

Nýjast