Vinnustaðaskírteini gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum

Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, fjallaði um vinnustaðaskírteini á trúnaðarráðsfundi Einingar-Iðju í gær. Þar sagði hann m.a. frá tilurð þeirra og tilgangi. Vinnustaðaskírteinunum er ætlað að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi og undirboðum á vinnumarkaði en mikilvægt er að öll fyrirtæki sitji við sama borð og fylgi settum reglum.  

Halldór sagði frá hvernig eftirliti verður háttað og hverjir sjá um það, en nú þegar er búið að samþykkja þrjá eftirlitsfulltrúa á svæðinu, Ásgrím Hallgrímsson og Þorstein Arnórsson frá Einingu-Iðju og Heimi Kristinsson frá Fagfélaginu. Þeir munu verða sýnilegir í fyrirtækjum á næstunni þar sem þeir munu kynna þetta og kanna hvort fyrirtækin eru komin með í notkun slík skírteini. Halldór minntist einnig á tvo kynningarfundi sem haldnir voru fyrr um daginn, annar á Akureyri og hinn á Ólafsfirði. Þar var verkefnið kynnt fyrir atvinnurekendum. Þrátt fyrir að um 120 boðsbréf hafi verið send út þá var þátttakan mjög lítil.

Í maí sl. voru samþykkt á Alþingi lög nr. 42/2010 lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum og í kjölfarið, eða þann 15. ágúst sl., tók gildi samkomulag ASÍ og SA um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum. Fram til 15. nóvember nk. munu eftirlitsfulltrúar veita atvinnurekendum sem samkomulagið nær til leiðbeiningar um innleiðingu vinnustaðaskírteina. SA og ASÍ hvetja atvinnurekendur til að bregðast skjótt við og stuðla að heilbrigðu starfsumhverfi á Íslenskum vinnumarkaði. Frá 15. nóvember verður tekið hart á þeim fyrirtækjum sem ekki fara eftir lögunum.

Byggingastarfsemi, mannvirkjagerð, rekstur gististaða og veitingarekstur fellur í fyrstu undir gildissvið samkomulagsins og er miðað við ÍSAT2008 flokkun atvinnurekanda í fyrirtækjaskrá RSK. Samkomulag ASÍ og SA afmarkar einnig hvaða starfsmenn innan þessara atvinnugreina falla undir eftirlitið. Þetta kemur fram á vef Einingar-Iðju.

Nýjast