Vilja halda áfram rannsóknar- borunum á Þeistareykjum í sumar

Fjórir þingmenn í Norðausturkjördæmi, sjálfstæðismennirnir Kristján Þór Júlíusson, Arnbjörg Sveinsdóttir og Ólöf Norðdal og Einar Már Sigurðarson Samfylkingu, hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um rannsóknarboranir á Þeistareykjum sumarið 2009 og undirbúning fyrir álver á Bakka. Þar er gert ráð fyrir að Alþingi og ríkisstjórn hlutist til að rannsóknarboranir fari fram á Þeistareykjum sumarið 2009 vegna orkuöflunar og undirbúnings virkjunarframkvæmda fyrir álver á Bakka við Húsavík.  

Jafnframt að ríkisvaldið beiti sér fyrir fjármögnun rannsóknarþáttar verkefnisins um álver á Bakka og hafist verði handa við gerð fjárfestingarsamnings við Alcoa. Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að sveitarfélögin í Þingeyjarsýslum hafi á annan áratug unnið að því af mikilli þrautseigju að efla atvinnustig í héraði. Ástæða þessa er fækkun starfa í frumgreinum á borð við sjávarútveg og landbúnað sem á árum áður var horsteinn samfélaganna í Þingeyjarsýslum. Sú þróun hefur leitt til fólksfækkunar á Norðausturlandi eins og fram kemur í skýrslu Byggðastofnunar um byggðarlög með viðvarandi fólksfækkun frá júlí 2008.

Ennfremur segir í greinargerðinni: Því skal haldið til haga að sveitarfélögin í Norðausturlandi hafa á liðnum áratug lagt umtalsvert fé til atvinnusköpunar með það að markmiði að geta snúið við neikvæðri byggðaþróun. Margt hefur verið reynt sem því miður hefur ekki skilað tilætluðum árangri. Hinn 16. maí 2006 var skrifað undir viljayfirlýsingu milli iðnaðarráðuneytisins fyrir hönd ríkisvaldsins, Húsavíkurbæjar (nú Norðurþings) og álframleiðandans Alcoa um könnun á arðsemi þess að reisa álver í landi Bakka við Húsavík. Samningurinn markaði tímamót í langri baráttu fyrir eflingu atvinnustigs í Þingeyjarsýslum og veitti íbúum svæðisins bjartari sýn á framtíðina. Ástæða þessa var umfang verkefnisins, líftími þess og áhrifasvæði til sjávar og sveita. Þess skal getið að 83% íbúa svæðisins eru fylgjandi verkefninu og telja að það muni hafa jákvæð áhrif á Norðausturland.

Í viljayfirlýsingunni frá 2006 er skýrt kveðið á um hvernig að verkefninu skuli staðið og í framhaldinu var skrifað undir tvær aðrar viljayfirlýsingar milli Alcoa og Landsvirkjunar annars vegar og Alcoa og Landsnets hins vegar. Frá fyrsta degi hefur verið unnið markvisst að þeim verkefnum sem nauðsynleg eru til endanlegrar ákvörðunartöku. Viljayfirlýsingin var framlengd um 15 mánuði 26. júní 2008 og rennur út í lok september 2009. Gríðarleg vinna og fjármunir hafa verið lagðir í rannsóknir á háhitasvæðum í Þingeyjarsýslum til að kanna mögulega afkastagetu þeirra. Þessi vinna hefur verið leidd af Landsvirkjun, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og sveitarfélaginu Þingeyjarsveit. Niðurstöður eru mjög jákvæðar og ljóst er að þarna eru miklar orkuauðlindir. Sem stendur vantar aðeins herslumuninn til að ljúka nauðsynlegum rannsóknarborunum á háhitasvæðunum, en til stóð að þeim yrði lokið sumarið 2009. Óljóst er hvort hægt er að ljúka rannsóknunum á þessu stigi vegna úrskurðar umhverfisráðherra frá 31. júlí 2008 um sameiginlegt mat fjögurra af átta framkvæmdaþáttum verkefnisins. Úrskurður umboðsmanns Alþingis frá því í desember 2008 hefur staðfest málflutning heimamanna um ólögmæti úrskurðarins. Fjárhagslegt tjón vegna hans er umtalsvert.

Mikilvægi verkefnisins fyrir Norðausturland og þjóðarbúið allt hefur aukist gríðarlega í ljósi þeirra erfiðu aðstæðna sem íslenska þjóðarbúið stendur frammi fyrir. Fjöldi fjölda nýrra starfa mun skapast við undirbúning virkjunarframkvæmda sumarið 2009 og undirbúning álversframkvæmda á Bakka árið 2010 og síðar við byggingu álversins, byggingu virkjunar á Þeistareykjum, Húsavíkurhöfn o.fl. Má þar nefna störf við stækkun hafnarinnar, rannsóknarstörf á Þeistareykjum og störf í rafiðnaði, málmiðnaði, byggingariðnaði og jarðvinnu, en einnig við umsýslu, hönnun, verksamningagerð, innkaup og stjórnun framkvæmda. Verkefni á borð við þetta auka hagvöxt á framkvæmdatíma auk þess sem landsframleiðsla til framtíðar verður meiri en áður. Útflutningsverðmæti munu aukast eftir að verksmiðjan hefur störf. Án hagvaxtar er vandasamt að auka þjónustu ríkisins við almenning. Verkefnið er því til hagsbóta fyrir þjóðarbúið og landsmenn alla. Talið er að nýtt álver á Bakka mundi skapa 450-500 ný störf í Norðurþingi og nágrenni, um 200 störf á Eyjafjarðarsvæðinu og 900-1.050 afleidd störf á landsvísu. Talið er að hvert starf í áliðnaði skapi 2,5 afleidd störf. Í Norðurþingi og nágrenni væri bæði um að ræða störf fyrir einstaklinga með verkmenntun og háskólamenntun í álverinu sjálfu en einnig í tengdum iðnaði, þjónustu og verslun. Þessi nýju störf munu renna styrkari stoðum undir atvinnulíf í sveitarfélögunum sem í hlut eiga en á undanförnum árum hefur störfum fækkað þar samhliða breytingum í sjávarútvegi og landbúnaði. Bygging og starfsemi álversins mun leiða til fólksfjölgunar sem nemur um eða yfir 1.000 manns á svæðinu. Áhrif álversins á mannlíf á Norðurlandi verða bæði mikil og jákvæð sem og á allan þjóðarhag. Til að verkefnið um sjálfbært samfélag með álver á Bakka geti orðið að veruleika sem fyrst er nauðsynlegt að ríkisvaldið beiti sér án tafar í málinu.

Nýjast