"Kosningaloforð L-listans var að endurvekja Atvinnumálanefnd og endurskilgreina hlutverk Akureyrarstofu, því vekur það furðu okkar að málaflokknum
skuli nú stefnt í vinnuhóp sem heyrir undir Akureyrarstofu með óljós markmið og stefnu," segir í sameiginlegri bókun sem
bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Bæjarlistans og Framsóknarflokksins, þeir Ólafur Jónsson, Sigurður Guðmundsson og
Guðmundur Baldvin Guðmundsson, lögðu fram á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun.
"Við viljum að skipuð verði nefnd sem heyrir beint undir bæjarráð, en ekki Akureyrarstofu, því málið er afar brýnt. Þannig
eykst skilvirkni, boðleiðum fækkar og auðveldar og styttir ákvarðanatöku. Við leggjum til að ráðinn verði starfsmaður sem heyrir beint
undir nefndina. Nefndin skili síðan frumdrögum að stefnu bæjarins í atvinnumálum eigi síðar en 1.október 2010. Nefndin skal koma saman
vikulega frá 15. júlí 2010 til 30.september 2010 og síðan á tveggja vikna fresti," segir í bókun bæjarfulltrúanna.
Ennfremur segir í bókuninni:
"Nefndin skal skipuð til 31.desember 2010 og er verksvið hennar eftirfarandi;
1) Á skipunartíma skilar hún lokaskýrslu í stefnumótun í atvinnumálum.
2) Nefndin heyri beint undir bæjarráð.
3) Nefndinni er einnig falið að ráða starfsmann (verktaka) fyrir 4. ágúst 2010 sem starfar með henni til 31.12. 2010.
4) Nefndin skilar jafnframt starfslýsingu um áframhaldandi störf nýrrar atvinnunefndar sem hefur störf 1. janúar 2011 og starfar út
kjörtímabilið.
5) Nefndin annast sameiginlega ráðningu starfsmanns til að fylgja eftir stefnumótunarvinnu nefndarinnar.
Hann er ráðinn frá og með 1. Janúar 2011."