Vilhelm vann þrenn verðlaun á Opna þýska

Vilhelm Hafþórsson sundkappi frá Sundfélaginu Óðni, stóð sig með miklum sóma á Opna þýska meistaramótinu í sundi sem fram fór á dögunum, en þangað fór hann með landsliði Íþróttasambands fatlaðra. Vilhelm vann til þriggja verðlauna á mótinu. Hann sigraði í 200 m skriðsundi og varð þriðji í 100 m skriðsundi og 200 m fjórsundi. Jón Heiðar Jónsson þjálfari Vilhelms, segir í samtali á vefsíðu Óðins að Vilhelm sé mikið efni.

„Hann hefur náð afar góðum árangri í sundinu á tiltölulega stuttum tima og ferillinn því verið talsvert brattur, ef svo má segja. Hann er þegar orðinn meðal okkar öflugustu sundmanna, var nú að taka þátt í sínu fyrsta stórmóti erlendis og hefur að mínu mati alla burði til að ná enn lengra með réttum æfingum og umgjörð, segir Jón Heiðar.

Nýjast