Lífrænar aðferðir draga úr hættu á ýmiskonar mengun í matvælum enda kornið framleitt án eiturefna og tilbúins áburðar. Bjórinn er bruggaður eftir hefðum frá Pilsen í Tékklandi og ber nafnið Pils Organic. Bjórinn er ljós á litinn og í hann er notað mikið af humlum sem gefur bæði gott bragð og lykt ásamt sérstöku eftirbragði. Bruggmeistarinn Baldur Kárason á heiðurinn af þessum nýja bjór sem eflaust á eftir að verða vel tekið. Pils Organic er eingöngu seldur í glerflöskum og er fáanlegur í Vínbúðum í Kringlunni, Skútuvogi og Heiðrúnu við Stuðlaháls, auk þess sem hann er fáanlegur á betri veitingastöðum og börum um allt land. Þá standa vonir til þess að bjórinn verði fáanlegur í Vínbúðum nálægt framleiðslustað, m.a. á Akureyri, Dalvík og Húsavík.
Víking Ölgerð á Akureyri fer ótroðnar slóðir þegar kemur að vörulínunni; Íslenskur úrvals, en Pils Organic er annar bjórinn undir þessari línu. Fyrsti bjórinn var Stout sem einnig var fyrsti Stout sem framleiddur hafði verið á Íslandi. Nú er Stout fáanlegur í fjölmörgum Vínbúðum og veitingastöðum bæði í glerflöskum og á krana, segir í fréttatilkynningu.