Vífilfell bruggar nýjan bjór úr lífrænt ræktuðu hráefni

Vífilfell hefur hafið framleiðslu á sterkum bjór úr lífrænt ræktuðu hráefni, í verksmiðju sinni á Akureyri. Vífilfell er þar með fyrsta íslenska ölgerðin til að framleiða slíkan bjór, að sögn Unnsteins Jónssonar verksmiðjustjóra. Byrjað var að tappa fyrstu lögunni á flöskur í síðustu viku.  

Bjórinn átti að fara í sölu á veitingahúsum um síðustu helgi en í reynslusölu í Vínbúðum ÁTVR eftir einn til tvo mánuði. Nýi bjórinn heitir Pils Organic og er með 5% alkóhólinnihald. Pils er ljósgulur lagerbjór og fer bruggunin fram eftir lífrækt vottuðu framleiðsluferli. "Með þessari framleiðslu er við að útvíkka línuna sem byrjuðum á með Stout bjórnum fyrir tveimur árum. Við erum að fjölga í þeirri línu, jafnframt að sýna fram á að við getum framleitt öðruvísi bjóra og auka vöruúrvalið. Hins vegar gerum við ekki ráð fyrir mikilli sölu á þessum bjór en það er aukinn áhugi fyrir lífrækt ræktuðum vörum og ég held að þetta sé ágæt viðbót við það," segir Unnsteinn.

Vífilfell framleiðir nú átta tegundir af sterkum bjór, fyrir utan árstíðabjórana um jól og páska. Unnsteinn segir að sala á bjór hafi dregist heldur saman á þessu ári, miðað við sama tíma í fyrra. Breytingin sé helst sú að samdráttur hefur orðið í sölu á bjór í Vínbúðunum en aukining hefur orðið í sölu á bjór á veitingahúsum, þar sem íslensku fyrirtækin eru nær allráðandi í bjór á kútum.

Nýjast