Veruleg hætta getur skapast þegar tré falla

Nokkurt tjón varð á trjágróðri í hvassviðrinu sem gekk yfir í liðinni viku, fjölmörg tré rifnuðu upp með rótum og féllu til jarðar.  Hallgrímur Indriðason skipulagsráðunautur hjá Skógrækt ríkisins hefur vakið athygli á þeirri slysahættu sem slíkt getur haft í för með sér.  

"Það getur skapast af þessu veruleg hætta, en sem betur fer hefur hvassviðri þar sem tré rifna upp og falla til jarðar á undangengnum árum orðið að næturlagi og því fáir á ferli," segir Hallgrímur.  Hann bendir á að mikið sé um gömul tré við t.d. Laugagötu og Hrafnagilsstræti þar sem jafnan er mikil umferð skólabarna, "og þau geta alveg farið í næstu hviðu og eru því að mínu mati mikil slysagildra," segir hann.  Hann telur nauðsynlegt að gert sé í bænum eins konar áhættumat vegna trjáa sem standa við akvegi og umferðarmannvirki, en telur þó ólíklegt að það verði gert, "eða örugglega ekki fyrr en verður slys," bætir hann við.

Sjálfur tók hann þátt í verkefni af þessu tagi í Osló í Noregi, en þar var skipulega farið yfir svæði í borginni og metin hætta af trjám sem kynnu að falla, t.d. í ofsaveðri.  Hann telur að þau tré sem eflaust myndu verða metin hættuleg í þessu tilliti í bænum séu oft og tíðum hin sömu og menn agnúast á stundum út í þar sem þau standa við götur og hindra umferð. 

Samkvæmt upplýsingum frá Jóni Birgi Gunnlaugssyni forstöðumanni umhverfismála hjá
Framkvæmdadeild Akureyrarbæjar, gæti verið ástæða til að vinna lista yfir hættuleg tré. "Við höfum ekki verið að fella tré skipulega vegna hættu en auðvitað tökum við þau ef augljóst er að þau eiga á hættu að falla. Við höfum hins vegar verið að grisja töluvert og fækka trjám sem farin eru að skyggja verulega á," segir Jón Birgir.

Nýjast