Verk eftir Mozart flutt á tónleikum í Glerárkirkju

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heldur tónleika í Glerárkirkju á Akureyri í dag, sunnudaginn 19. október kl. 16.00. Á tónleikunum verða leikin verk eftir W.A.Mozart.  Einleikari á horn er Ella Vala Ármannsdóttir og stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson, sem verið hefur aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands frá stofnun hennar.  

Tónleikarnir hefjast á Sinfóníu nr. 1 sem Mozart samdi aðeins 8 ára gamall,  en eins og flestir vita var Mozart undrabarn í tónlist. Hann hafði þá þegar samið nokkur lítil verk fyrir píanó en fyrstu skráðu tónsmíðina samdi hann aðeins 5 ára gamall.  Tónverkin sem Mozart samdi á unga aldri urðu  smám saman flóknari og í upphafi árs 1764, þegar hann  8 ára, samdi hann tvær sónötur fyrir fiðlu og píanó. Það var síðan í október sama ár sem hann lauk við sína fyrstu sinfóníu sem verður flutt á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands á sunnudaginn.  Þetta er lítil sinfónía í þremur köflum og verður ekki síst gaman bera þá tónsmíð saman við sinfóníu nr. 29 sem sem einnig verður flutt og Mozart samdi 10 árum síðar eða þegar hann er 18 ára gamall. Einnig verður á tónleikunum fluttur Hornkonsert nr. 2 í Es dúr sem Mozart samdi fyrir æskuvin sinn  Josef Lautgeb.

Ella Vala Ármannsdóttir er fædd í Svarfaðardal árið 1980. Hún hóf að leika á horn við Tónlistarskóla Dalvíkur hjá Eiríki Stephensen og hélt áfram námi hjá Sveini Sigurbjörnssyni í Tónlistarskólanum á Akureyri. Á árunum 1997-2003 stundaði hún nám við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Joseph Ognibene og lauk þaðan blásarakennara- og einleikaraprófi. Árin 2003-2006 hélt Ella Vala áfram námi við Musikhochschule Freiburg im Breisgau. Nú er hún í framhaldsnámi í Schola Cantorum Basiliensis í Sviss við náttúruhornleik. Ella Vala er stofnmeðlimur kammersveitarinnar Ísafoldar, hefur verið lausráðin hjá Sinfoníuhljómsveit Íslands síðan 1999 og leikið m.a. með Hljómsveit Íslensku óperunnar, Sinfoníuhljómsveit Norðurlands, Orkester Norden og Freiburger Barocksolisten.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hélt sína fyrstu tónleika 24. október 1993 og fagnar því nú í október 15 ára farsælu starfi.  Kjarni hljómsveitarinnar hefur frá upphafi verið kennarar við Tónlistarskólann á Akureyri og hópur hljóðfæraleikara sem býr og starfar á landsbyggðinni. Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur haldið tónleika á Akureyri og víða á Norðurlandi og fengið til liðs við sig kóra, einleikara og einsöngvara frá Akureyri og úr nágrannabyggðum og þannig stutt við og auðgað norðlenskt tónlistarlíf.

Nýjast