Verðlaunaður ‏‏þrifaróbóti í vinnslu Samherja á Dalvík

Róbótinn var hannaður af kanadíska fyrirtækinu Rbot9 og Samherja. Búnaðurinn hlaut nýsköpunarverðlau…
Róbótinn var hannaður af kanadíska fyrirtækinu Rbot9 og Samherja. Búnaðurinn hlaut nýsköpunarverðlaun á tæknisýningunni EATS Expo 2025, sem er sú stærsta sinnar tegundar í Norður-Ameríku / myndir Rbot9

Róbóti sem þrífur vélbúnað í vinnslu Samherja á Dalvík hefur verið tekinn í notkun, eftir um tveggja ára þróunarferli í samvinnu við kanadíska fyrirtækið Rbot9.

Rbot9 er verkfræðifyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun og samþættingu á kapaltengdum róbótum. Fyrirtækið hlaut nýsköpunarverðlaun á tæknisýningunni EATS Expo 2025, sem er sú stærsta sinnar tegundar í Norður-Ameríku og hefur þessi nýi hátæknibúnaður vakið mikla athygli.

Fleiri róbótar í þróun

Róbótinn fer í gang fljótlega eftir að vinnslu lýkur

 

Atli Dagsson tæknistjóri landvinnslu Samherja segir fyrirhugað að vinna að enn frekari þróun búnaðarins í samvinnu við tækniteymi kanadíska fyrirtækisins. Við hönnun nýja vinnsluhússins á Dalvík var sérstaklega horft til ‏þess að hafa góða lofthæð og nægt rými á milli vinnslulína, enda líklegt að í framtíðinni myndi verða framleiddur búnaður sem þyrfti umtalsvert rými.

„Við vorum á tækni- og matvælasýningu í Bandaríkjunum og kynntumst þar þessu framsækna kanadíska fyrirtæki, sem var meðal annars að kynna róbóta sem greina skemmdir á skrokkum flugvéla. Þeir eru tengdir við kaplakerfi, svífa í loftinu líkt og myndavélar á knattspyrnuvelli og geta þess vegna unnið á öllum hliðum viðkomandi vinnslubúnaðar. Eftir skammar viðræður hófust tækniteymi fyrirtækjanna handa við að þróa þetta róbótakerfi með það fyrir augum að nýta við þrif á vinnslulínum á Dalvík. Í dag er staðan sú að búið er að setja upp róbóta sem sér um að þrífa lausfrystiflokkara. Vinna við þróun fleiri slíkra tæknilausna er vel á veg komin og við bindum vonir við að fleiri sambærilegir róbótar verði settir upp hjá okkur á næstu árum.“

Samvinna byggð á trausti

Fédéric Vachon forstjóri Rbot9 segir að samvinnan við Samherja hafi verið árangursrík.

„ Frá fyrsta degi var greinilegt að fulltrúar Samherja gerðu sér grein fyrir þeim möguleikum sem felast í þessari tæknilausn, enda mikil þekking innan Samherja á þessu sviði. Tillögur Samherja hafa verið áskoranir fyrir okkur hjá Rbot9. Þétt samvinna sem einkennist af trausti á öllum stigum, hefur nú leitt af sér búnað sem hlotið hefur nafnið VOTTA.“

Áhersla á þróun og nýsköpun

Gestur Geirsson framkvæmdastjóri landvinnslu Samherja segir að hreinlæti sé stór og mikilvægur liður í allri matvælavinnslu, allir þættir framleiðslunnar verði að uppfylla ströngustu kröfur varðandi hreinlæti og meðferð hráefnis. Vinna við þrif sé utan hefðbundins vinnutíma og henti því ekki öllum.

„Róbótinn fer í gang fljótlega eftir að vinnslu lýkur. Með þessari tækni breytast störfin að hluta til í eftirlit með því að búnaðurinn vinni vel og örugglega. Íslenskur sjávarútvegur er einn sá fremsti í heimi, meðal annars vegna nýsköpunar og þróunar á flestum sviðum starfseminnar. Samherji hefur lagt áherslu á að koma að þróun og innleiðingu nýrra lausna og samstarfið við Rbot9 er í takt við þá stefnu. Þessi samvinna hefur nú leitt af sér tæknilausn sem hlotið hefur alþjóðlega athygli.“

Mikill áhugi á VOTTA

Fédéric Vachon segir að matvælafyrirtæki víða um heim hafi þegar óskað eftir því að fá að skoða búnaðinn á Dalvík.

Fédéric Vachon forstjóri Rbot9 á alþjóðlegri ráðstefnu.

 

„ Áhuginn er greinilega mikill. Nýsköpunarverðlaunin á EATS Expo 2025 eru mikils virði og athygli margra í matvælageiranum beinast að Dalvík á Íslandi. Við erum núna að skipuleggja ferðir til Dalvíkur til að kynna búnaðinn með það fyrir augum að koma VOTTA fyrir í fleiri verksmiðjum, bæði í Ameríku og Evrópu.“

Hér má sjá kynningarmyndband um nýja búnaðinn í vinnslu Samherja á Dalvík.

 

 

www.samherji.is sagði fyrst frá

Nýjast