Veltum við hverjum steini

Vinna við fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár er í fullum gangi og hefur reyndar staðið yfir frá því í sumar, að sögn Eiríks Björns Björgvinssonar bæjarstjóra. Fram að þessu hefur vinnan verið að stórum hluta út í nefndum og stofnunum bæjarins og í bæjarráði, þar sem fulltrúar allra flokka eiga sinn fulltrúa. Mesta áherslan hefur verið lögð á að verja velferðarþjónustuna.  

Eiríkur segir að það hafi áhrif á vinnu við fjárlagagerðina að fjárlög ríkisins liggi ekki fyrir. Hann segir að unnið sé með niðurskurð hjá Akurerarbæ upp á um 300 milljónir króna en treystir sér ekki til að nefna hver endanleg niðurstaða verður. "Þetta hefur verið mikil vinna hjá öllum starfsmönnum bæjarins og við erum að velta við hverjum steini og skoða alla möguleika."

Eiríkur segir að útgjöld hafi aukist m.a. vegna reksturs Hofs og einnig við það að taka nýtt íþrótta- og fimleikahús í notkun. Á sama tíma og leitað er leiða til hagræðingar og sparnaðar í rekstri sveitarfélagsins, er jafnframt verið að vinna við framkvæmdaáætlun næsta árs. "Það þarf frekari innspýtingu í atvinnulífið og þá sérstaklega í tengslum við framkvæmdir í mannvirkjagerð. Við erum að skoða framkvæmdir og fjárfestingar upp á um 1.500 milljónir króna á næsta ári. Stærstu verkefnin sem rædd hafa verið eru bygging nýs hjúkrunarheimilis, áframhaldandi uppbygging Naustaskóla og lagning hluta Dalsbrautar."

Eiríkur er bjartsýnn á að fjárhagsstaða bæjarins í lok árs verði betri en áætlanir gerðu ráð fyrir og það gæti haft áhrif á fjárhagsstöðu næsta árs. Aðspurður um  hvort til uppsagna starfsmanna bæjarins eða skerðingar á starfshlutfalli komi, sagði Eiríkur að það gætu orðið breytingar á störfum innan stofnana bæjarins. Það sé þá fyrst fremst á þann veg að ekki verði ráðið í störf sem losna. "Við gerum allt sem við getum til þess að komast hjá uppsögnum og höfum jafnframt verið að reyna að verja störf, eins og hjá Öldrunarheimilum Akureyrar. Það er einhver misskilningur í gangi um að segja þurfi upp 30 manns á einu bretti innan fræðslugeirans. Þar hefur aðeins verið horft til hagræðingar á löngu tímabili," segir Eiríkur.

Stefnt er að því að fyrri umræða um fjárhagsáætlun næsta árs fari fram í bæjarstjórn 7. desember og síðari umræða þann 21. desember nk..

Nýjast