Vel heppnaðri Atvinnu- og nýsköpunarhelgi á Akureyri lokið

Sigurvegararnir Brynjar Valþórsson, Egill Heinesen og Birkir Örn Pétursson.
Sigurvegararnir Brynjar Valþórsson, Egill Heinesen og Birkir Örn Pétursson.

Vel heppnaðri Atvinnu- og nýsköpunarhelgi lauk í Háskólanum á Akureyri seinni partinn í dag, þegar veitt voru verðlaun fyrir athyglisverðustu hugmyndirnir. Um 90 þátttakendur mættu til leiks á föstudag, eða 20 fleiri en í fyrra þegar slík vinnuhelgi var haldin í fyrsta sinn og í upphafi voru kynntar 34 hugmyndir. Ekki var unnið með allar hugmyndirnir en dómnefnd voru kynntar 19 hugmyndir sem unnið hafði verið með um helgina. Þeir þátttakendur sem Vikudagur ræddi við í lokin voru allir mjög ánægðir með helgina. Það sama sagði Kristján Freyr Kristjánsson framkvæmdastjóri Innovit en fyrirtækið hafði yfirumsjón með allri vinnu um helgina. Fyrstu verðlaun hlaut verkefnið; Whale buddy en að því verkefni stóðu þeir Brynjar Valþórsson, Egill Heinesen og Birkir Örn Pétursson. Þeir félagar fengu 400 þúsund krónur í sigurlaun. Þeir fengu einnig 50 þúsund króna verðlaun fyrir bestu kynninguna á verkefni sínu. Í öðru sæti að mati dómnefndar varð verkefnið; Life line en að verkefninu stóðu þau Bjarni Sigurðsson, kona hans Árveig Aradóttir, sonur þeirra Andri Þór Bjarnason og Brynjólfur Snorrason. Þau fengu 200 þúsund krónur fyrir annað sætið. Life line var einnig valið besta verkefnið af þátttakendum helgarinnar og það með nokkrum yfirburðum. Fyrir þann árangur fékk hópurinn 50 þúsund krónur í verðlaun. Í þriðja sæti að mati dómnefndar varð verkefnið; Tannstrá en að því verkefni vann Snæfríður Ingadóttir og fékk hún 100 þúsund krónur fyrir þann árangur. Dómnefnd valdi jafnframt það verkefni sem líklegast væri til að ná árangri og fyrir valinu varð verkefnið Orkulundur. Þá fékk verkefnið; Fjölskyldulínan, 50 þúsund króna verðlaun fyrir besta vinnuna um helgina.

Sigurverkefnið Whale buddy, snýst um að hanna og þróa svokallað APP, sem er forrit fyrir snjallsíma, til að hjálpa fólki í hvalaskoðun, fólki sem ekki þekkir það tungumál sem leiðsögumaðurinn í viðkomandi hvalaskoðunarbát notar við kynningar. Birkir Örn segir að inn í þessu forriti sé stór gagnagrunnur, með mynd af hvölum, fólk getur fengið lestur á sínu tungumáli um hvalinn sem leiðsögumaðurinn er að fjalla um, einnig er hægt að sjá myndband af viðkomandi hvalategund. Þá er hægt að taka myndir af hvölum og skrá niður þá hvali sem viðkomandi hefur séð. “Þetta er byrjunin á hugmyndinni en hún á væntanlega eftir að þróast jafn mikið til viðbótar og hún hefur gert hér um þessa helgi. Við komum ekki með tillöguna hingað inn eins og hún svo þróaðist en góð samvinna okkar þriggja og margra fleiri skilaði þessu og fyrir það erum við mjög þakklátir,” sagði Birkir Örn.

Bjarni Sigurðsson sagði verkefnið Life line trió, snúist um  að auka öryggi sjómanna, með því að setja á flotgalla í skipum þrjár líflínur, þ.e. GPS staðsetningu, vera með efni í göllunum sem radar nemur og svo díóðuljós, sem nætursjónaukar geta numið í allt að 50 km fjarlægð.

Snæfríður sagði að sig langaði til að hefja framleiðslu á íslenskum tannstöglum, ekki úr tré heldur úr stráum. Hún sagðist ekki vera að finna upp hjólið með þessu, því íslenskir bændur hefðu stangað úr tönnum sínum með stráum frá því land byggðist. “Íslensku stráin henta vel í tannstögla því þau eru passlega stíf til að stanga úr tönnunum en eru hol að innan og leggjast því saman, þannig er hægt að stinga þeim á milli tannanna og nota eins og tannþráð líka,” sagði Snæfríður.

Verkefnastjórar helgarinnar og helstu mennirnir á bak við þetta verkefni, ásamt reyndar fleirum, þeir Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi og verslunarmaður og Matthías Rögnvaldsson framkvæmdastjóri Stefnu, fengu viðurkenningar fyrir sitt framlag.  

Nýjast