Vel á annað hundrað sýnendur

Hin árlega Handverkshátíð í Eyjafjarðarsveit verður haldin við Hrafnagilsskóla um næstu helgi og er uppsetning svæðisins í fullum gangi. Þessi 18 ára gamla hátíð er að breytast í skemmtilega blöndu af vandaðri sölusýningu og hátíð og nýtt að sjá hvert ár. Allt gert með það fyrir augum að gestir staldri lengur við og komi aftur og aftur.

Vel á annað hundrað sýnendur undirbúa nú komu sína norður en ásamt þeim verður fjöldinn allur af hópum og félögum á svæðinu. Einnig má nefna að verksvæði handverksmanna verður litríkt, tískusýningar, krambúð, sirkushópur, blöðrulist og andlitsmálun fyrir börnin, gríðarlega spennandi söguþorpi verður komið upp og tímavél spunnin með handverksmönnum, landnámsmenn í miðaldatjöldum sýna verklag gamla tímans frá miðöldum til baðstofustemningarinnar og svo til nútímamannsins Vélrúningur Birgis Arasonar úr Gullbrekku þar sem ullin er svo spunnin í réttinni og nú jafnvel jurtalituð í söguþorpinu. Félag landnámshænsna verður með sýningu og sína dásamlegu fegurðarsamkeppni. Kajaksmíði og vélasýning eru svo punkturinn yfir i-ið svo allir finni sér eitthvað skemmtilegt til að fylgjast með. 
Það er því fjölbreytt hátíð framundan og allt framkvæmt með ungmennafélagsandanum þar sem hálf sveitin leggst á eitt við framkvæmdina. Spennandi námskeið verða haldin í tengslum við hátíðina þann 10.-12.ágúst: Ölhænur, Flauelsskurður og Næfur. 

Nýjast