Starfsfólk og stúdentar með aðgang að Scite – leiðandi rannsóknartóli með innbyggðum stuðningi við fræðslu og gervigreind.
Háskólinn á Akureyri hefur gengið frá tveggja ára samningi við Scite, eitt öflugasta rannsóknar- og tilvísunartól nútímans. Scite nýtir gervigreind til að greina heimildir, draga fram samhengi og auka gagnsæi í vísindastarfi. Með samningnum fá starfsfólk og stúdentar skólans fullan aðgang að Scite sem hluta af Enterprise-leyfi skólans.
Magnús Smári Smárason, verkefnisstjóri gervigreindar, segir að með því að gera Scite aðgengilegt fyrir öll innan Háskólans á Akureyri skapist ekki aðeins aðstaða til að efla rannsóknir og gagnrýna hugsun, heldur einnig raunverulegt tækifæri til að þróa og aðlaga nám og kennslu að þeim veruleika sem ör þróun gervigreindar skapar. „Þannig að við hvetjum alla kennara, stúdenta og fræðafólk til að nýta sér þetta öfluga tól og taka virkan þátt í mótun framsækins og siðferðilega ábyrgs háskólasamfélags.“
Magnús bætir við: „Til að kynnast þessu betur fékk ég Dr. Sean Rife, annan stofnanda Scite og prófessor við Murray State University í Bandaríkjunum, til að vera gestur í hlaðvarpinu Temjum tæknina og verður þátturinn birtur þann 9. maí nk.“
Temjum tæknina er hlaðvarpssería HA um gervigreind og hægt að finna hana inni á Spotify rás skólans.
Áhersla á fræðin í Scite
Scite býður upp á svokallaðar snjallar tilvísanir, aðgengi að öflugum gagnagrunnum og greiningartólum sem styðja bæði við rannsóknarvinnu og gagnrýna hugsun í kennslu og fræðastarfi. Samhliða innleiðingu mun Scite veita markvissan stuðning með námskeiðum, fræðslu og sérsniðnu leiðbeinandanámskeiði og fagnámskeiði fyrir starfsfólk á fræðasviðum.
Í kerfinu er jafnframt að finna snjalla aðstoðarþjónustu sem byggir á tengingu við OpenAI og Anthropic. Með þessari samþættingu er hægt að spyrja spurninga og fá svör sem byggja eingöngu á ritrýndum og skrásettum heimildum. Þetta eykur bæði nákvæmni og áreiðanleika og dregur verulega úr hættu á villandi eða tilbúnum niðurstöðum eins og getur fylgt notkun almennra stórra mállíkanaleitarvéla.
Verkefnið er leitt í samstarfi Bókasafns og Kennslu- og upplýsingatæknimiðstöðvar Háskólans í samvinnu við Magnús Smára. Til að tryggja ábyrga og upplýsta notkun Scite munu allir notendur þurfa að taka stutt netnámskeið í gegnum kennslukerfi skólans áður en aðgangur verður veittur.
„Við í HA teljum mikilvægt að starfsfólk og stúdentar geri sér grein fyrir ábyrgð og möguleikum notkunar gervigreindar og þessi vinna er liður í því. Ásamt aðgangi að Scite er verið að byggja upp stefnu og umhverfi sérhannað fyrir skólann,“ segir Magnús að lokum.