Útibú Íslandsbanka á Akureyri styrkir Fjölskylduhjálpina

Útibú Íslandsbanka á Akureyri hefur ákveðið að styrkja starfsemi Fjölskylduhjálpar Íslands um 2,5 milljónir króna. Í dag, 10. desember, er 20 ára afmæli útibús Íslandsbanka á Akureyri og var styrkurinn afhentur af því tilefni. Styrkurinn rennur beint til kaupa á nauðsynjavöru fyrir skjólstæðinga Fjölskylduhjálparinnar á svæðinu.  

Það var Ingi Björnsson útibússtjóri sem afhenti Björk Sigurgeirsdóttur frá Fjölskylduhjálpinni styrkinn. Einnig voru viðstaddar þær Una Steinsdóttir framkvæmdastjóri viðskiptasviðs og Birna Einarsdóttir bankastjóri Íslandsbanka. Ingi sagði að hjálparstofnanir á borð við Fjölskylduhjálpina séu mikilvægar í núverandi efnahagsumhverfi. "Með þessum styrk viljum við leggja okkar af mörkum til þess mikilvæga starfs sem Fjölskylduhjálpin innir af hendi hér á Akureyri. Útibúið stendur einnig fyrir jólagjafasöfnun í útibúi bankans þar sem fólk getur komið með aukagjöf, pakkað inn og komið fyrir undir tré. Við komum gjöfunum svo til skila til Jólaaðstoðarinnar," sagði Ingi.

Nýjast