Skúli Árnason félagi í Súlum og tengiliður hópsins á Íslandi, sagði að leiðangursmenn hefðu reynt við ísvegg í yfir 6.000 metra hæð en þurft frá að hverfa, þar sem brotnað hafði úr honum. Auk þess hafði snjófljóð fallið þar fyrir ofan, á svæði sem leiðangursmenn hefðu þurft að fara yfir og þá var veður mjög slæmt. Því hafi ekki verið um annað að gera í stöðunni en að snúa við, að sögn Skúla. Hópurinn var í búðum í yfir 6.000 metra hæð sl. nótt í leiðindaveðri en hann er nú kominn í búðir í um 5.500 metra hæð. Skúli sagði að hópurinn stefndi að því að komast alla leið í grunnbúðir á morgun. Hann sagði að ungmennin væru við góða heilsu og sæmilega sátt við að hafa komist þó þetta hátt. "En það er ekki hægt að ráða við veðrið."
Þetta var í fyrsta sinn sem íslenskur leiðangur freistar þess að ganga á fjallið, sem þykir eftirsóknarvert takmark bestu fjallgöngumanna heims. Aðeins einn hópur fær leyfi til að reyna við fjallið í einu. Í hópnum frá Akureyri eru Berglind Aðalsteinsdóttir, tvíburabræðurnir Gunnar Sveinn Ragnars og Eiríkur Geir Ragnars, Kári Erlingsson og leiðangursstjórinn Arnar Þór Emilsson. Öll eru þau þrautreynt björgunarsveitarfólk og hafa starfað í björgunarsveit til fjölda ára, þrátt fyrir nokkuð ungan aldur.