Svo virðist sem mjög greinilegur samdráttur sé í tekjum margra sveitarfélaga á síðustu mánuðum og er Akureyrarbær í þeim hópi. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri segir á vef RÚV, að árið hafi byrjað vel en tekjurnar hafi hins vegar farið minnkandi síðustu mánuðina. Tölurnar núna lofi ekki góðu. Eiríkur Björn segir tekjuniðursveifluna mælast í tugum og jafnvel hundruðum milljóna króna. Hann segir að skjótt hafi verið brugðist við vandanum til dæmis með því að hagræða í vörukaupum og þjónustu. Hann segir að hingað til hafi menn komist hjá því að snerta við launum en það kunni að breytast nú. Hann kveðst þó ekki vera að boða uppsagnir.