Umferðin í nóvember dróst mikið saman miðað við nóvember í fyrra

Miðað við umferðina í nóvembermánuði á 16 völdum talningarstöðum á Hringveginum stefnir í mesta samdrátt í umferð á milli ár frá því talningar hófust árið 1975. Umferðin í nóvember dróst mjög mikið saman miðað við nóvembermánuð í fyrra og er umferðin nánast sú sama og hún var árið 2005.  

Þrátt fyrir að umferðin í september hafi verið meiri en fyrir ári stefnir í að umferðin dragist saman um ríflega fjögur prósent, en hingað til hefur samdráttur verið mjög sjaldgjæfur á milli ára og langmestur 2,5 prósent á milli áranna 2007 og 2008. Í síðustu fréttum, frá 16 völdum talningastöðum á Hringvegi, sagði Vegagerðin frá óvæntri 3,3% aukingu á akstri milli októbermánaða 2009 og 2010 þar sem líkleg skýring var talin hagstætt veðurfar. Jafnframt var þess getið að reynslan sýndi að ef október væri umferðarmikill þá væri það ekki endilega ávísun á stóran nóvembermánuð heldur þvert á mót og jafnan líkur til þess að nóvember yrði talsvert minni. Því mætti alveg eins eiga von á því, nú í ár.

Um mikinn samdrátt er að ræða á öllum landssvæðum þó mest á Suðurlandi eða 9,3% og á Austurlandi eða 9,2%. Norðurland fylgir þar fast í kjölfarið með 8,1% samdrátt, næst kemur Vesturland með 5,8% samdrátt. Þótt umferðin dragist minnst saman á höfuðborgarsvæðinu milli októbermánaða er samdrátturinn í akstri samt mikill eða 4,4%. Aksturinn hefur dregist það mikið saman í nóvember árið 2010 að hann var einungis 0,5% meiri en árið 2005, sem er sá minnsti, á því árabili sem birt er.

Þegar horft er til þess sem af er árinu, borið saman við árið 2009, þá er ljóst að nú stefnir í mesta samdrátt milli ára, frá upphafi mælinga frá 1975, eða 4,2%. Samdrátturinn milli áranna 2009 og 2010 er næstum tvöfalt meiri en sá er nærst kemur en hann varð á milli áranna 2007 og 2008, eða 2,5% fyrir sama tímabil. Það gerist ekki oft að umferð dregst saman milli ára því þótti 2,5% samdráttur vera mikill. Ljóst er að ný viðmið verða sett nú í ár. Þessi mikli samdráttur nú virðist fyrst og fremst vera borinn uppi af gríðarlegum samdrætti á akstri um Hringveg á Suðurlandi en þar hefur hann dregist saman um 8,2%. Minnst hefur aksturinn, aftur á móti, dregist saman á Norðurlandi frá áramótum eða 0,9%.

Varðandi skýringar á þessum mikla samdrætti á Suðurlandi, fyrir utan sjálfa kreppuna mætti velta upp öðrum áhrifaþáttum eins og eldgosi, flóðum og sýkingum í hrossum, sem færa má fyrir því rök að hafi haft aukalega áhrif á Suðurland umfram önnur svæði, segir á vef Vegagerðarinnar.

Nýjast