Ýmsar skýringar má nefna sem ástæður þess að tjónum hefur fækkað. Ljóst er að seinni hluta ársins dró verulega úr umferð. En þessi þróun hefur átt sér stað meirihluta ársins og ef umferðargreinar Vegagerðarinnar eru skoðaðir hefur meðalhraði lækkað, hugsanlega vegna hækkaðs eldsneytisverðs. Rannsóknir sýna að ef ökuhraði lækkar um 10% geti tjónum fækkað um 20% og slysum um 30%. Í fyrra slösðuðust 436 færri í umferðinni en árið 2007. Í fyrra voru tjónin á höfuðborgarsvæðinu 68.6% allra tjóna en árið 2007 voru þau 70%. Flest alvarlegu tjónin voru utan höfuðborgarsvæðisins. Athygli vekur að fjöldi slasaðra á höfuðborgarsvæðinu er einungis 54.1%. Hlutfall slasaðra er mun meira á landsbyggðinni.
Föstudagarnir verstir
Það þarf engum að koma á óvart að flest tjón verða á föstudögum. 18% tjónanna urðu þá daga og 19% slysanna. Mun færri tjón verða um helgar, eða 12% á laugardögum og 8% á sunnudögum. Aðra vikudaga er nokkuð jöfn dreifing tjóna. Hvað varðar dreifingu á mánuði þá voru flest tjónin fyrstu 3 mánuði ársins en eftir það fór þeim verulega að fækka. Þannig voru um 11.8% tjóna í febrúar en frá apríl - desember voru þau milli 7 og 8%.
Sjá má nokkra breytingu á tjónamynstri undanfarin misseri. Undanfarin ár hafa bakktjón verið algengust meðal ökumanna og er það reyndar enn. Aftanákeyrslur hafa löngum fylgt þeim fast eftir í 2. sæti. Nú eru tjón þar sem ekið er á kyrrstæða hluti s.s. mannvirki, bíla, umferðarmerki í 2. sæti. Þegar rýnt er í þessi óhöpp, má sjá í vaxandi mæli að ökumenn eru annars hugar við aksturinn og oft uppteknir við aðra hluti en akstur, s.s. tala í síma, borða, fikta í hljómtækjum svo dæmi séu nefnd. Oft má sjá í skýrslum að ökumenn hafi haft mikið að gera og viljað nota „dauða tímann" við aksturinn til að sinna því sem þurfti að sinna, s.s. hringja áríðandi símtöl.
Það er áríðandi í þéttri og flókinni umferð í dag að vera með athyglisgáfuna í lagi. Akstur er full vinna en ekki aukavinna. Ökumenn verða að beina allri sinni athygli að akstrinum. Við sem ökumenn verðum að muna að við erum mannleg, gerum mistök og þar er umferðin ekki undanskilin. Því er svo mikilvægt að geta brugðist við og leiðrétt þau áður en í óefni er komið. Það er best gert með því að hafa fulla athygli við aksturinn.
Ekki má láta deigan síga
Margt hefur verið gert til að fækka slysum í fyrra. Þar hafa margir lagt sitt af mörkum. Í Forvarnahúsinu er öflug fræðsla til ökunema, ungra ökumanna, starfsmanna fyrirtækja og hefur sýnt sig að sú nýja nálgun sem í Forvarnahúsinu er beitt skilar mjög góðum árangri. Þar er átt við upplifunarsetur,þar sem þátttakendur finna á eigin skinni hvers vegna við þurfum að huga að eigin öryggi, s.s. notkun bílbelta, draga úr hraða og aka ekki undir áhrifum vímuefna.
Reikna má með að umferðarslys í fyrra hafi kostað þjóðfélagið nálægt 27 milljörðum króna. Þá eru talin tjón sem tryggingafélögin greiða, tjón þeirra sem ollu tjóni og voru ekki með sína bíla kaskótryggða og ekki síst samfélagskostnaðurinn sem tekinn er af sköttum okkar landsmanna. Það er því þjóðhagslega hagkvæmt að halda áfram öflugu forvarnastarfi auk þess sem hvert mannslíf er þess virði að því sé bjargað. Við megum ekki taka það sem sjálfsagðan fórnarkostnað að 15-25 manns láti lífið í umferðinni og 2500-3000 manns slasist, segir í fréttatilkynningu frá Einari Guðmundssyni forstöðumanni Forvarnahússins.