Umfangsmiklar framkvæmdir í Fjólugötu

Fjólugötu á Akureyri hefur verið lokað að hluta tímabundið en þar eru nú komnar í gang umfangsmiklar framkvæmdir. Burðarlag götunnar verður endurnýjað og þá verða fráveitulagnir, raflagnir og hitaveituveitulagnir endurnýjaðar eins og þörf er á.  

Áætlað er að þessi vinna taki um tvo mánuði og verði lokið seinni hlutann í nóvember. Vinnu við götuna er skipt í tvo verkhluta og hófust framkvæmdir á vestari hlutanum í síðustu viku. Í lokin verður gangstéttin að sunnanverðu endurnýjuð og jafnframt breikkuð um 50 cm. Þá er gert ráð fyrir bílastæðum meðfram götunni að sunnanverðu í framtíðinni.

Samkvæmt upplýsingum frá framkvæmdadeild Akureyrarbæjar er í fjárhagsáætlun gert ráð fyrir að heildarkostnaður við endurbyggingu götunnar geti numið allt að 25 milljónum króna. Eðli verksins vegna var verkið ekki boðið út þar sem búast mátti við háum verðum sökum margra óvissuþátta. Verkið er unnið í samvinnu við Norðurorku og unnið af starfsmönnum þess og starfsmönnum Framkvæmdamiðstöðvar. GV gröfur sjá að mestu leiti um vélavinnu og Verkfræðistofa Norðurlands sér um hönnun og eftirlit ásamt starfsmönnum Framkvæmdadeildar.

Nýjast