Um 80 þúsund manns um borð í skemmtiferðaskipum sumarsins

Um 55 þúsund farþegar lögðu leið sína til Akureyrar með skemmtiferðaskipum á liðinu sumri, eitt er raunar ókomið enn, en síðasta skemmtiferðaskip þessa sumars er væntanlegt 1. október næstkomandi.  Pétur Ólafsson skrifstofustjóri hjá Hafnasamlagi Norðurlands segir að um 10% aukingu sé að ræða í fjölda farþega miðað við sumarið 2009.   

Alls komu í sumar 57 skip til Akureyrar, álíka mörg og í fyrrrasumar, en þau sem nú komu voru að jafnaði stærri og því með fleiri farþega. Í áhöfnum skipanna voru allt að 25 þúsund manns, þannig að gríðarlegur fjöldi fólks var á ferðinni með skemmtiferðaskipum sumarsins.  „Þetta er drjúgur hópur fólks," segir Pétur og bætir við að umtalsverð atvinnusköpun sé í kringum komur skipanna. Þá megi gera ráð fyrir að hver og einn ferðalangur sem fari frá borði eyði nokkrum fjármunum á ferðum sínum.

„Það gekk allt mjög vel í sumar og engin vandamál komu upp," segir Pétur, en alls þrjú skip afboðuðu komu sína, öll vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna. Hvað næsta sumar varðar segir Pétur að svipaður fjöldi skipa hafi verið bókaður í höfn á Akureyri og hingað kom í sumar, tæplega 60 skip.  „Fyrsta skipið verður óvenju snemma á ferðinni, kemur um miðjan maí og nú í ár erum við að taka á móti síðasta skipinu í byrjun október sem er líka óvenjulegt," segir Pétur.

Nýjast