Um 400 tonnum af sandi verið dreift á götur bæjarins í vetur

Umhverfisstofnun hyggst fjárfesta í færanlegum svifryksmæli fyrir Akureyrarbæ og er vonast til að hann verði kominn í gagnið í sumar eða haust. Mikið svifryk hefur verið á Akureyri og á síðasta ári fór svifryk yfir heilsuverndarmörk í 40 daga í bænum. Tengsl eru á milli loftgæða og heilsufars fólks og þetta ástand hefur m.a. reynst fólki með öndunarsjúkdóma erfitt. Á málþingi um umferðarmengun og loftgæði sem Félag umhverfisfræðinga á Íslandi stóð fyrir á Akureyri í vikunni, kom fram í máli Alfreðs Schiöth, heilbrigðisfulltrúa Norðurlands eystra, að hægt væri að fá búnað við svifryksmæla, sem gæfi fólki möguleika á að fá upplýsingar um svifryk á rauntíma í áskrift, t.d. með sms sendingum eða tölvupósti. Þannig gæti fólk sem væri viðkvæmt fyrir svifryki varast ákveðna bæjarhluta ef ástæða væri til vegna mengunar. Einnig væri hægt sjá þessar upplýsingar á vefsíðu bæjarins og þá kom upp hugmynd að birta slíkar upplýsingar á mælum á svipuðum stöðum og hitastigið úti er gefið upp, t.d. á Ráðhústorgi. Ekki hefur þó verið tekin ákvörðun um hvort fjárfest verður í slíkum aukabúnaði á Akureyri.

Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari VMA og formaður umhverfisnefndar Akureyrar, sagði að staðreyndin væri sú að fólk tæki bílinn fram yfir heilsuna. Hann nefndi sem dæmi yfirfull bílastæði við framhaldsskólana VMA og MA. Alls hefur um 400 tonnum af sandi verið dreift á götur bæjarins í vetur og hefur um 3% af salti verið blandað í sandinn og allt orðið vitlaust vegna þess, að sögn Hjalta Jóns. "Þetta eru trúarbrögð hjá Akureyringum að ekki megi blanda salti í sandinn og svo eiga starfsmenn bæjarins að hreinsa sandinn upp um leið og hlánar."

Jón Birgir Gunnlaugsson, verkefnastjóri umhverfismála hjá framkvæmdadeild Akureyrarbæjar, sagði að þrátt fyrir alla þessa sanddreifingu hefði aldrei orðið annað eins tjón á umferðarljósum, ljósastaurum og umferðarskiltum og í vetur. Á málþinginu var því jafnframt velt upp hvort sátt myndi nást um að eingöngu yrði notað salt til hálkuvarna á Akureyri einn vetur og málið svo gert upp að því loknu. Fram kom að nauðsynlegt væri að gera tilraun með saltið en menn höfðu ekki mikla trú á að sátt yrði um það í bænum.

Sigurður Friðleifsson framkvæmdastjóri Orkuseturs sagði að það væri almennur og heilagur metnaður að eiga bíl á Íslandi og það væri í raun glapræði að ætla að fá fólk til að eiga ekki bíl. Leggja ætti áherslu á að fá fólk til að nota orkunýtnustu bílana í hverjum stærðar- og gerðarflokki og jafnframt draga úr bílanotkun. Hann sagði að hægt væri að byrja á því að skipta yfir í díselbíla. Einnig nefndi Sigurður að um 4.000 bílar gætu keyrt á metan og með því að opna metanstöð á Akureyri myndi markaðurinn galopnast. Hann sagði að opinberar stofnanir gætu farið fyrir þessari þróun og að metan væri ódýrasta eldsneytið í dag.

Nýjast