Gunnar Gíslason, fræðslustjóri á Akureyri, segir veturinn lofa góðu. „Þetta skólaár leggst bara vel í okkur og það verða svo sem engar stórvægilegar breytingar. Grunnþjónustan verður öll með svipuðu sniði og verið hefur og hér eru allflestar forsendur okkur í hag fyrir því að hægt sé að reka öflugt skólastarf. Hér er góð aðstaða, öflugt fólk og nú hefur t.d. verið bætt við þriðja sálfræðingnum til stuðnings og ráðgjöf við nemendur," segir Gunnar.
Naustaskóli er að hefja sitt annað skólaár og þar verða nemendur frá 1.-8. bekk, en á næstu tveimur árum er stefnt að nemendur í 9.-10. bekk bætist við. Mikil ásókn var í kennarastöður skólanna og yfirleitt fleiri en ein umsókn um hverja stöðu. Gunnar segir nánast eingöngu kennara með réttindi verða við kennslu í grunnskólum bæjarins í vetur. „Það er nánast undantekning ef kennarar eru ekki með réttindi eða menntun og það eiginlega þekkist ekki hér á Akureyri. Hlutfallið er nánast hundrað prósent. Hér er gott fólk með mikla reynslu við störf í bland við menntun," segir Gunnar.