Ráðstefnan fæst við afleiðingar efnahagskreppunnar haustið 2008 og hvernig hún hefur haft áhrif á ferðaþjónustu og hvernig greinin hefur brugðist við. Eins og allir vita þá kom efnahagslægðin illa við Íslendinga, segir í fréttatilkynningu. Í kjölfar kreppunnar horfðu margir til ferðaþjónustu og báru kennsl á vægi hennar í efnahagslífi Íslands. Árið 2009 rættust væntingar fólks að því leyti að Ísland hélt nokkurn veginn sínum gestafjölda þrátt fyrir almennan samdrátt í ferðalögum um heim allan. Að auki varð alger sprenging í ferðum Íslendinga innanlands, þeirra sem ekki höfðu nú efni á að fara erlendis. Búist var við 25% fleira ferðafólki árið 2010 miðað við árið á undan, en þá gaus í Eyjafjallajökli. Eins og staðan er í dag er ekki alveg ljóst hvaða áhrif gosið mun koma til með að hafa á heildarfjölda gesta þetta árið og hvernig væri hægt að bregðast við breytingum. Í hnattrænu samhengi verður ferðaþjónusta, þá sérstaklega flug, að laga sig að heimi þar sem meira er af ösku en minna af peningum.
Fræðafólk af Norðurlöndum sýnir á þessari ráðstefnu fram á hve víðfeðmt og allt um lykjandi svið ferðamálafræða er á Norðurlöndum. Verður ráðstefnan vettvangur líflegra skoðanaskipta sem væntanlega munu snúast um Norrænt sjónarhorn á síkvikan heim ferðaþjónustu.