Um 1100 manns sóttu um skólavist í HA

Um 1.100 manns sóttu um skólavist í Háskólanum á Akureyri fyrir næstkomandi haust og er það 5-8 prósenta aukning frá því í fyrra. Mest er sótt í heilbrigðisdeildina og auðlindagreinarnar, en heldur fækkar í viðskiptadeildinni og í félagsvísindum. Stefán B. Sigurðsson, rektor skólans, segir það ánægjulegt hversu margir sýni skólanum áhuga.  

„Miðað við stöðu mála í dag og mikla samkeppni á skólamarkaði, erum við mjög sátt með þetta. Þetta sýnir bara mikilvægi skólans og það hefur ekkert dregið úr því heldur bara vaxið. Svo er bara að sjá hvort við náum ekki að halda sem flestum sem sækja hér um en lokatölur ættu að koma í ljós um miðjan júlí," segir Stefán.

Alls verða 375 kandídatar brautskráðir frá Háskólanum á Akureyri á morgun laugardag. Brautskráningin fer fram í Íþróttahöllinni á Akureyri og hefst kl. 10:30. Langflestir brautskrást frá hug- og félagsvísindadeild eða 214. Frá viðskipta- og raunvísindadeild brautskrást 86 manns og 75 frá heilbrigðisvísindasviði. Konur eru í miklum meirihluta þeirra sem munu brautskrást eða 282 á móti 96 körlum.

Háskólaárið 2009-20010 stunduðu um 1500 nemendur nám á þremur sviðum við Háskólann á Akureyri.  Ríflega þriðjungur þeirra stundaði fjarnám á u.þ.b. 20 stöðum á landinu. Flestir koma frá Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Selfossi og Ísafirði.

Nýjast