Tvö fullkomin rannsóknarskip eru gerð út frá Akureyri

Á Akureyri er starfandi fyrirtækið Neptune ehf., sem ekki lætur mikið yfir sér. Hér er engu að síður á ferðinni öflugt fyrirtæki með umfangsmikla starfsemi og fjölda manns í vinnu. Neptune gerir út tvö rannsóknarskip, með samtals um 30 áhafnameðlimum, erlendis starfa sölumenn og verkefnisstjórar og á skrifstofu fyrirtækisins í gamla Höpfnershúsinu á Akureyri eru fjórir starfsmenn.  

Einn þeirra er Ágúst Guðmundsson framkvæmdastjóri og einn eigenda Neptune ehf. en á hann á þriðjungshlut í fyrirtækinu á móti tveimur fjárfestum frá Rússlandi, menn sem hafa komið mikið að neðansjávarverkefnum. Í viðtali við Ágúst í Vikudegi í síðustu viku kemur m.a. fram að Neptune hafi keypt tvo gamla togara og breytt þeim í vel útbúin rannsóknarskip. Vinna við breytingar á skipunum fór fram á Akureyri, þar sem starfsmenn Slippsins komu að málum með afgerandi hætti, einnig starfsmenn frá Rafeyri, Rafröst og fleiri fyrirtækjum.

Rannsóknarskipið Neptune er í neðansjávarverkefni á Eystrasalti en hitt skipið, Poseidon, var í verkefni við Grænland, við botnrannsóknir og leit að olíu. Poseidon kom til hafnar á Akureyri í síðasta mánuði, úr sínum lengsta túr frá því skipið var smíðað árið 1974. Unnið er við við frekari endurbætur á Poseidon hjá Slippnum og til stendur að kalla Neptune heim úr Eystrasaltinu fljótlega. Setja á aukinn búnað í skipið,í þeim tilgangi að gera það enn samkeppnishæfara á þessum harða markaði. Ráðgert er sú vinna fari fram á Akureyri. Ítarlegt viðtal er við Ágúst í síðasta Vikudegi sem fyrr segir. Einnig er rætt við Guðmund Guðmundsson skipstjóra á Poseidon, sem áður hét Harðbakur EA, Anton Benjamínssson framkvæmdastjóra Slippsins Akureyri og Davíð Hafsteinsson tæknistjóra Rafeyrar.

Anton segir m.a. að á þessum fimm árum sem Slippurinn Akureyri hefur starfað, séu það tvö ný fyrirtæki í bænum sem hafi skipt sköpum fyrir Slippinn, annars vegar Neptune og hins vegar Becromal.

Nýjast