Tveir félagar sæmdir gullmerki Einingar-Iðju á aðalfundi

Tveir félagar voru sæmdir gullmerki Einingar-Iðju á aðalfundi félagsins í síðustu viku. Þetta eru þau Ingigerður Jónsdóttir og Geir Guðmundsson.  Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, sagði við það tækifæri, að þeir sem hlutu viðurkenningu hafi unnið sitt starf af trúmennsku og óeigingirni. Hann sagði að þetta fólk hafi ekki sjálft verið að hæla sér af verkum sínum sem það þó hefði auðveldlega getað gert.  

"Í þeirra huga var samstarfsfólkið og félagið ofar á blaði. Eyfirskt verkafólk á ykkur mikið að þakka fyrir ykkar óeigingjarna starf og viðurkenning sú sem ykkur er veitt í dag er mjög smá miðað við það sem þið hafið lagt að mörkum," sagði Björn ennfremur.

Ingigerður Jónsdóttir var lengi trúnaðarmaður hjá Frystihúsi Dalvíkur síðan Samherja og var einn af máttarstoðunum í starfi Dalvíkurdeildar Einingar-Iðju. Hún er nú varasvæðisfulltrúi Dalvíkurbyggðar, situr í trúnaðarráði félagsins og hefur sinnt fjölmörgum störfum í þágu þess. Geir Guðmundsson er búinn að vera lengi trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Hann hefur setið í stjórn Tjarnargerðis í langan tíma, einnig hefur hann setið í stjórn Opinberu deildar félagsins og er þar enn. Hann hefur setið í trúnaðarráði, samninganefnd félagsins og sinnt fjölmörgum störfum í þágu félagsins. Hann hefur einnig setið í samstarfsnefndum fyrir Starfsgreinasambandið er varðar starfsmenn Vegagerðarinnar.

Nýjast