Treysti á að áhorfendur fylli Höllina

Það verður enn einn stórleikurinn í boði í Íþróttahöllinni á Akureyri í N1-deild karla í handbolta í dag en þá mætast tvö efstu lið deildarinnar, Akureyri og Fram kl. 16:30. Norðanmenn eru enn ósigraðir í deildinni og hafa 18 stig á toppi deildarinnar eftir níu sigurleiki í röð. Fram er einnig á miklu skriði í deildinni en liðið hefur 14 stig í öðru sæti og hefur unnið sex leiki í röð.

„Nú þurfum við bara að fylla Höllina aftur. Það var frábær stuðningur sem fleytti okkur í gegnum erfiða hjalla í toppslagnum gegn HK og ég treysti á að við fyllum Höllina aftur gegn Fram,” segir Atli Hilmarsson þjálfari Akureyrar.

„Við ætlum að halda okkar sigurgöngu áfram. Fram liðið er mjög sterkt og við virðumst hafa kveikt í þeim því þeir hafa ekki tapað síðan við unnum þá um miðjan október. Þeir eru á miklu skriði með vel mannað lið og hafa einu bestu breiddina af þeim liðum sem við höfum mætt auk FH,” segir Atli.

Reynir Þór Reynisson, þjálfari Fram, er ágætlega bjartsýnn fyrir leikinn.

„Þessi leikur leggst bara mjög vel í okkur og það verður spennandi að koma í stemmninguna fyrir norðan og spila fyrir fullri höll. Ég tel okkur eiga góða möguleika. Við höfum alveg getuna til þess að klára þennan leik en þetta verður erfitt. Akureyri er búið að spila mjög vel og ég á bara von á skemmtilegum leik og mikið af mörkum og spennu,” segir Reynir.

Nánar er rætt við þá Atla og Reyni í nýjasta tölublaði Vikudags. 

Nýjast