Toppslagur í Höllinni í kvöld

Tvö „heitustu” liðin um þessar mundir í N1-deild karla í handolta, HK og Akureyri, mætast í toppslag deildarinnar í Íþróttahöllinni á Akureyri í kvöld kl. 19:00. Tvö stig skilja liðin að fyrir leikinn í kvöld, Akureyri hefur 14 stig á toppi deildarinnar en HK hefur 12 stig í öðru sæti og getur því með sigri í kvöld komið sér upp að hlið Akureyrar á toppnum.

„Leikurinn leggst mjög vel í mig og það er alltaf ákveðin hápunktur á vetrinum að koma norður, þar er mikil stemmning og mikið af fólki,” segir Vilhelm Gauti Bergsveinsson fyrirliði HK.

„Það er ekki annað hægt en að vera fullur bjartsýni fyrir leikinn. Það virðist ekkert stöðva okkur eins og er en þetta verður hörkuleikur,” segir Heimir Örn Árnason fyrirliði Akureyrar.

Nánar er rætt við þá Vilhelm og Heimi um leikinn í kvöld í Vikudegi í dag.

Nýjast