Tónleikarnir “Konur fyrir konur” í Hofi á morgun

"Konur fyrir konur" er yfirskrift tónleika sem fram fara í Menningarhúsinu Hofi á morgun fimmtudag kl. 20.30. Það er Lára Sóley Jóhannsdóttir fiðluleikai sem stendur fyrir tónleikunum ásamt fleiri listakonum búsettum í Eyjafirði. Tónleikarnir verða svo endurteknir í Bergi, menningarhúsinu á Dalvík á föstudag kl. 12.00.  

Flutt verða tónverk og ljóð eftir konur. Allur aðgangseyrir rennur óskiptur til Bleiku slaufunnar, átaks Krabbameinsfélags Íslands, en miðaverð er kr. 2.500. Hönnuðurinn Joja, verður með hönnun sína til sýnis á staðnum og einnig mun listakonan Arna Valsdóttir mála mynd á meðan tónleikum stendur. Að tónleikum loknum verður uppboð á málverkinu og hönnun frá Joja og munu þeir peningar einnig renna til söfnunarinnar.

Fram koma Ásdís Arnardóttir, selló, Eyrún Unnarsdóttir, mezzosópran, Helga Bryndís Magnúsdóttir, píanó, Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla, Petrea Óskarsdóttir, þverflauta. Um ljóðalestur og kynningar sér Bryndís Ásmundsdóttir, leikona en flutt verða ljóð eftir Grétu Kristínu Ómarsdóttur. Frumflutt verða tvö íslensk tónverk, annað eftir Guðrúnu Ingimundardóttur, en hitt efir Hildigunni Rúnarsdóttur.

Nýjast