Tilraun hafin með nýtingu moltu til uppgræðslu

Starfsmenn Moltu ehf. í Eyjafjarðarsveit eru nú að hefja tilraun með nýtingu á moltu til uppgræðslu. Moltu sem staðið hefur á þroskunarplani í um sex mánuði eftir að hún kom úr tromlunum verður dreift á afmarkað svæði,  lítið afgirt hólf austan við lóð fyrirtækisins sem er í landi Þverár í Eyjafjarðarsveit, þar sem svo verður sáð grasfræi í moltuna.  

Fyrir í hólfinu er grófur malarbotn eftir malarnám. Þessi tilraun er gerð í samráði við Matvælastofnun en Molta ehf. bíður nú eftir heimild stofnunarinnar til að nýta moltuna í samræmi við reglugerð um meðferð og nýtingu á slátur- og dýraleifum. Moltan er öflugur jarðvegsbætir og áburður og er  vonast til að hægt verði að hefja fulla nýtingu á honum næsta vor. Fyrsta starfsári Moltu er nú nýlega lokið, en tekið var á móti fyrsta farminum af sláturúrgangi frá Norðlenska um miðjan júní í fyrrasumar. Frá þeim tíma hefur jarðgerðarstöðin verið óslitið í vinnslu. Á þessu fyrsta starfsári félagsins voru jarðgerð 4.900 tonn af úrgangi, sem skiptist nánast jafnt milli slátur-, fisk- og heimilisúrgangs annars vegar og stoðefna hins vegar. Stoðefnin eru fyrst og fremst timburkurl og kurlaður trjágróður en einnig gras, hrossatað og pappír. Moltan sem framleidd hefur verið á þessu tímabili hefur verið nýtt til landmótunar og frágangs á urðunarstað Flokkunar á Glerárdal og til uppgræðslu á lóð Moltu.

Nýjast