Þung umferð frá Dalvík - Fiskidegi lokið

Umferðin er nú nokkuð þung á þjóðvegi 1 um Öxnadal og í Skagafjörð og á veginum frá Dalvík að þjóðvegi 1, en gestir Fiskidagsins á Dalvík eru farnir að halda heim á leið. Lögreglan á Davík segir umferðina út úr bænum þunga en ganga þó vel. Í dag hefur lögregla gefið fólki kost á því, bæði við tjaldstæðin og á lögreglustöðinni, að blása í áfengismæla áður en það sest undir stýri.

 Fjöldaárekstur varð í Blönduhlíðinni í Skagafirði nú síðdegis og tafðist umferð nokkuð af þeim sökum en ekki er talið að alvarleg slys hafi orðið á fólki.

Fiskidagurinn mikli gekk stórslysalaust fyrir sig en hátt í tíu þúsund manns komu til bæjarins af því tilefni. Þó komu upp nokkur tilvik hjá lögreglu. Maður um tvítugt var stunginnn með hnífi í nótt en áverkinn var ekki mikill. Annar maður á svipuðum aldri var handtekinn vegna málsins. Þá fundust nokkur fíkniefni bæði í nótt og fyrrinótt og var gerð húsleit í kjölfarið og fannst bði kannabis og hass. Almennt var talsverð ölvun á Dalvík í nótt og var folk að skemmta sér fram undir morgun.

Nýjast