Laugardaginn 2. ágúst nk. verður haldin þriðja umferð Íslandsmótsins í motocross hér á Akureyri. Mótið er haldið af KKA akstursíþróttafélagi og fer keppnin fram á svæði félagsins í Glerárdal fyrir ofan Akureyri. Búast má við spennandi keppni við frábærar aðstæður þar sem KKA hefur lagt mikla vinnu í uppbyggingu svæðisins.
Keppni í 85cc flokki og kvennaflokki hefst kl. 12:00 og kl. 14:00 hefst keppni í meistaraflokki. Reiknað er með hátt í hundrað keppendum á laugardaginn. Sunnudaginn 3. ágúst verður svo heimsmeistaramót í torfæru á motocrosshjólum í malargryfjunum fyrir ofan Akureyri. Þar reyna menn sig við ýmsar þrautir og brekkur og hefst mótið kl.16:00.