Þórsarar fengu óskabyrjun á Þórsvelli en Ármann Pétur Ævarsson kom heimamönnum 1:0 yfir strax á sjöttu mínútu leiksins með skalla eftir hornspyrnu frá Atla Sigurjónssyni. Aðeins þremur mínútum síðar var Ármann Pétur aftur á ferðinni fyrir Þórsara. Hann slapp einn inn fyrir vörn Fjarðabyggðar en Daníel Freyr Guðmundsson reif hann niður í teignum og réttilega dæmd vítaspyrna og Daníel Freyr rekinn útaf. Aleksandar Linta fór á punktinn og skoraði örugglega úr vítinu. Staðan 2:0 fyrir Þór eftir átta mínútur og heimamenn einum manni fleiri.Ármann Pétur Ævarsson skoraði svo annað mark sitt og þriðja mark Þórs á 22. mínútu er hann fékk sendingu inn fyrir vörn Fjarðabyggðar og skoraði örugglega framhjá Pétri Kjartani Kristinssyni í marki Fjarðabyggðar. Staðan 3:0 og úrslitin nánast ráðin á Þórsvelli eftir tæplega tuttugu mínútna leik.
Nenad Zivanovic skoraði svo fjórða mark Þórs eftir hálftíma leik. Jóhann Helgi Hannesson átti þá laglegan sprett og spólaði sig í gegnum vörn Fjarðabyggðar og lagði boltann fyrir markið þar sem Nenad skoraði örugglega af stuttu færi. Staðan 4:0. Jóhann Helgi skoraði svo sjálfur fimmta markið með frábærum skalla eftir sendingu frá Gísla Páli Helgasyni sjö mínútum fyrir hálfleik.
Fjarðabyggð náði að klóra í bakkann með marki úr vítaspyrnu en það var Aron Már Smárason sem skoraði úr spyrnunni eftir fimm mínútna leik í seinni hálfleik. Staðan 5:1. Heimamenn voru hins vegar ekki hættir og Ottó Hólm Reynisson skoraði sjötta mark Þórs á 65. mínútu með skalla eftir fyrirgjöf frá Aleksandar Linta. Mörkin héldu áfram að rigna inn hjá Þórsurum og Ármann Pétur Ævarsson fullkomnaði þrennuna með fínu skoti og kom Þór í 7:1 skömmu síðar.
Það var svo fyrirliði Þórs, Þorsteinn Ingason sem skoraði áttunda mark heimamanna í leiknum með skoti af stuttu færi á 72. mínútu. Sýning Þórsara hélt áfram og Ottó Hólm Reynisson skoraði níunda mark Þórs stundarfjórðungi fyrir leikslok og niðurlæging Fjarðabyggðar algjör.