Þórsarar lögðu Þrótt að velli í kvöld

Þór hafði betur gegn Þrótti R., 2:1, er liðin mættust á Þórsvelli í kvöld á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu. Þróttarar enduðu aðeins með níu menn inni á vellinum þar sem þeir Helgi Pétur Magnússon og Erlingur Jack Guðmundsson fengu að líta rauða spjaldið í seinni hálfleik. Mörk Þórs í leiknum skoruðu þeir Aleksandar Linta og Kristján Steinn Magnússon en Helgi Pétur Magnússon skoraði mark Þróttar. Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur og það tók þá rétt um 55 sekúndur að skora fyrsta mark leiksins.

Helgi Pétur átti þá skot að marki Þórs sem Björn Hákon Sveinsson varði en Helgi náði frákastinu og skallaði boltann í netið. Óskabyrjun hjá Þrótti sem voru mun líflegri í upphafi leiks. Þórsarar hresstust þegar líða fór á leikinn en áttu í vandræðum með að skapa sér marktækifæri. Staðan í hálfleik 1:0 fyrir gestina.

Þegar níu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik fengu Þórsarar dæmda vítaspyrnu. Aleksandar Linta fór á vítapunktinn og skoraði örugglega og jafnaði metin í 1:1. Heimamenn voru nálægt því að bæta við öðru marki skömmu síðar er Nenad Zivanovic skaut hátt yfir úr ágæti færi inn í teig. Þegar hálftími var liðinn af leiknum misstu Þróttarar mann útaf er Erlingur Jack Guðmundsson fékk að líta sitt annað gula spjald í leiknum. Skömmu síðar var Jóhann Helgi Hannesson var nálægt því að skora annað mark Þórs í leiknum er hann skallaði boltann í slána eftir hornspyrnu.

Á 67. mínútu varð vendipunktur í leiknum þegar Þróttur missti sinn annan leikmann af velli er markaskorarinn Helgi Pétur Magnússon braut illa á Sveini Elíasi Jónssyni og fékk beint rautt spjald fyrir vikið. Gestirnir því einungis níu á vellinum gegn ellefu heimamönnum. Þórsarar nýttu sér liðsmuninn og sóttu hart að marki gestanna. Á 77. mínútu tókst heimamönnum að nýta sér liðsmuninn til fulls og varamaðurinn Kristján Steinn Magnússon skoraði af stuttu færi fyrir opnum marki og staðan orðinn 2:1 fyrir Þór.

Þrátt fyrir einstefnu það sem eftir lifði leiks tókst heimamönnum ekki að bæta við marki og lokatölur því 2:1 sigur Þórs, sem eru komnir með 11 stig í deildinni.

Nýjast