Á Þórsvelli byrjuðu Leiknismenn leikinn betur og voru nálægt því að skora strax á þriðju mínútu er skot þeirra fór rétt framhjá markinu. Leikurinn fór fljótlega að jafnast út og Þórsarar voru hársbreidd fá því að komast yfir eftir tíu mínútna leik þegar Ottó Hólm Reynisson var nálægt því að setja boltann í netið eftir darraðadans í teig gestanna, eftir að Eyjólfur Tómasson í marki Leiknis hafði hrasað í teignum. Þrátt fyrir ágætis sóknartilburði á báða bóga tókst hvorugu liðinu að skora í fyrri í hálfleik og því markalaust þegar flautað var til leikhlés.
Þórsarar fengu óskabyrjun í síðari hálfleik er Sveinn Elías Jónsson kom þeim yfir með glæsilegu marki á 47. mínútu. Sveinn Elías lét þá vaða á markið fyrir utan teig og boltinn lá í netinu. Staðan 1:0.Fjör færðist í leikinn við markið og bæði lið fengu ágætis marktækifæri næstu mínútur og var Sigurður Marinó Kristjánsson nálægt því að bæta við öðru marki Þórs á 60. mínútu en skot hans fór rétt framhjá markinu. Þórsurum tókst að hanga á þessu eina marki til leiksloka og innbyrtu mikilvæg þrjú stig í toppbaráttunni.