Finnst þér sú gagnrýni sem dómarar fengu margir hverjir í sumar ósanngjörn og telurðu hún hafi áhrif á dómarana sjálfa?
„Gagnrýni á störf dómara á auðvitað rétt á sér en oft finnst mér vanta faglegri vinnubrögð í þeirri gagnrýni. Maður fylgist auðvitað með því sem sagt er og ritað um störf manns. Öllu hrósi og allri gagnrýni tekur maður með fyrirvara og reynir bara að einbeita sér að næsta verkefni. Til þess að geta verið í þessu verður maður að hafa trú á sjálfum sér hvernig sem á gengur. Með aukinni reynslu finnur maður strax inná vellinum hvort manni er að ganga vel eða illa aðalatriðið er að ná að halda haus þegar mistökin koma, því allir gera mistök og þá reynir á sjálfstraustið halda áfram eins og ekkert hafi í skorist og læra af þeim,” svaraði Þóroddur.
Eðlilegt að B-dómarar dæmi í efstu deild kvenna
Þegar þarna var komið við sögu færðist umræðan að dómgæslunni í þeim deildum sem Akureyringar sáu í sumar, 1.deild karla og úrvalsdeild kvenna.
„Ég sá nú ekki marga leiki í 1.deild og engan í Landsbankadeild kvenna í sumar. Það sem ég sá í 1.deild fannst mér heilt yfir bara gott margir þeirra stráka sem þar eru að dæma eru alveg við það að detta inn í Landsbankadeild karla. Svo erum við A-dómararnir að dæma marga leiki í 1.deild,” segir Þóroddur
Dómgæslan í efstu deild kvenna gat á stundum verið skrautleg. Finnst þér eðlilegt að í efstu deild kvenna skulu svokallaðir B-dómarar sjá um dómgæsluna, þ.e. þeir sömu og sjá um dómgæslu í 1 og 2. deild karla, en ekki efstu deildardómarar karla þ.e. A-dómarar?
„Mér finnst alls ekki óeðlilegt að B-dómarar séu að dæma í Landsbankadeild kvenna vegna þess að þeir dómarar eru oftast strákar sem er verið að keyra upp um deildir. Þeir dæma mikið í 1.deild karla og það má kannski að sumu leyti segja að Landsbankadeild kvenna sé skrefið á milli 1.deildar karla og Landsbankadeildar karla. Svona hvað umgjörð og umfjöllun snertir. Það er oft erfitt að dæma í Landsbankadeild kvenna og þar af leiðandi gríðarlega góð reynsla fyrir þessa stráka. Stelpurnar eiga auðvitað ekkert annað skilið en góða dómara og ég held að heilt yfir séu þeir sem dæma þessa leiki oftast menn sem er mikið í mun um að sanna sig,” sagði Þóroddur.
Akureyringar ekki óvægari en aðrir – jafnvel erfiðara að dæma í neðri deildum
Oft hefur heyrst á vörum aðkomumanna að áhorfendur á Akureyri séu orðljótari í garð dómara og aðkomuliða en gengur og gerist annarsstaðar, Þóroddur er ekki sama sinnis og sagði: „Ég kannski ekki sammála um að þeir séu orðljótari í garð dómara og aðkomuliða en annarsstaðar, hins vegar hvað gagnrýni á dómara snertir þá er þetta lítill bær þar sem flestir þekkja til hvors annars þannig að þetta verður oft persónulegra hérna en t.d. á höfuðborgarsvæðinu og það finnst mér aldrei gott."
Þessu tengt, er auðveldara að dæma í neðri deildum en þeirri efstu og krefjast leikir þar þá minni undirbúnings?
„Það er langur vegur frá því að auðveldara sé að dæma í neðri deildunum heldur en þeirri efstu og stundum er það alveg öfugt. Mesti munurinn er hvað allt utanaðkomandi áreiti er miklu meira í efstu deild karla. Allir fjölmiðlar með púlsinn á manni og áhorfendur miklu fleiri. Ég reyni að nálgast öll mín verkefni eins. Það er engin leikur engin leikmaður og ekkert lið minna en ég og maður verður alltaf að vera 100% klár í það sem bíður manns alveg sama hvort það er í Landsbankadeild karla eða 2.flokki. “
Að lokum, þar sem þú hefur góðan samanburð á liðum efstu deildar karla og 1.deildar karla, hvernig finnst þér staðan á Knattspyrnuliðum bæjarins?
„Mér finnst staða knattspyrnunar á Akureyri hálf sorgleg og alveg ömurlegt að eiga ekki lið í efstu deild karla. Það sem verra er að mér finnst vera alveg himin og haf á milli liðanna sem þar eru og okkar liða. En ljósið í myrkrinu er auðvitað frábær árangur Þórs/KA í Landsbankadeild kvenna..”