Þór/KA vann öruggan sigur á Grindavík á Þórsvellinum

Þór/KA vann öruggan 5:0 sigur í kvöld á liði Grindavíkur er liðin mættust á Þórsvelli í Pepsi- deild kvenna í knattspyrnu. Þar með minnkaði Þór/KA forystu Vals niður í fjögur stig, en norðanstúlkur virðast ætla að vera þær einu sem ætla að veita Valsstúlkum einhverja keppni um Íslandsmeistarartitilinn. Mateja Zver skoraði tvívegis fyrir Þór/KA í kvöld og þær Rakel Hönnudóttir, Arna Sif Ásgrímsdóttir og Gígja Valgerður Harðardóttir sitt markið hver.

Mateja Zver kom Þór/KA yfir eftir átta mínútna leik með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Heimastúlkur héldu áfram að sækja og voru oft á tíðum hársbreidd frá því að bæta við öðru marki næstu mínútur. Vesna Smiljkovic fékk svo dauðafæri á 36. mínútu er hún náði skoti að auðu marki gestanna inn í teig, en Vesna þurfti að teygja sig í boltann og skotið ekki nægilega kraftmikið og gestirnir björguðu á línu. Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks varð Þór/KA fyrir áfalli þegar Berglind Magnúsdóttir markvörður liðsins þurfti að yfirgefa völlinn vegna meiðsla.

Staðan í  hálfleik 1:0 Þór/KA í vil.

Þór/KA fékk dæmda vítaspyrnu eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik þegar brotið var á Vesnu Smiljkovic innan teigs. Mateja Zver fór á vítapunktinn og skoraði með hörkuskoti og kom Þór/KA í 2:0. Það var svo fyrirliði Þórs/KA, Rakel Hönnudóttir, sem skoraði þriðja mark norðanstúlkna eftir sjötíu mínútna leik. Rakel fékk þá boltann fyrir auðu marki eftir sendingu frá Mateju Zver og eftirleikurinn var auðveldur fyrir Rakel. Staðan 3:0. Arna Sif Ásgrímsdóttir kom Þór/KA í 4:0 með marki af mikilli harðfylgi á 82. mínútu leiksins. Það var svo Gígja Valgerður Harðardóttir sem skoraði fimmta og síðasta mark Þórs/KA í leiknum.

Lokatölur, 5:0 sigur Þórs/KA, sem hefur 22 stig í deildinni, fjórum stigum á eftir toppliði Vals. 

Nýjast