Þór/KA í annað sætið eftir sigur gegn Fylki

Þór/KA lagði Fylkir að velli 3:1 er liðin mættust á Þórsvelli í kvöld í Pepsi- deild kvenna í knattspyrnu. Mateja Zver, Vesna Smiljkovic og Rakel Hönnudóttir skoruðu mörk Þórs/KA í leiknum. Mark Fylkis skoraði Laufey Björnsdóttir. Með sigrinum er Þór/KA komið með 28 stig í öðru sæti deildarinnar, tveimur stigum meira en Breiðablik sem eiga þó leik til góða. Fylkir hefur 23 stig í fjórða sæti. Fyrri hálfleikur leiksins á Þórsvelli var afar bragðdaufur framan af og lítið að gerast hjá báðum liðum.

Það breyttist þó eftir um hálftíma leik. Rakel Hönnudóttir átti fína sendingu inn á Mateju Zver, sem var ein á auðum sjó inn í teig gestanna og fékk nægan tíma til þess að athafna sig og skoraði örugglega. Leikurinn hresstist aðeins eftir markið og skömmu síðar fékk Rakel Hönnudóttir dauðafæri en Björk Björnsdóttir í marki Fylkis sá við henni. Aðeins þremur mínútum síðar var Rakel aftur á ferðinni en skot hennar hafnaði í stönginni. Staðan 1:0 í hálfleik.

Seinni hálfleikur leiksins var svo rétt rúmlega þriggja mínútna gamall þegar Rakel Hönnudóttir kom Þór/KA í 2:0 með skallamarki af stuttu færi eftir sendingu frá Vesnu Smiljkovic. Þór/KA slakaði heldur á klónni eftir markið og Fylkir sóttu hart að heimastúlkum næstu mínúturnar. Norðanstúlkur tóku hins vegar fljótlega við sér aftur og áttu nokkur ákjósanleg færi.

 

Það var svo tveimur mínútum fyrir leikslok að þriðja mark Þórs/KA leit dagsins ljós og það skoraði Vesna Smiljkovic er hún lék á markvörð Fylkis og skoraði í autt markið. Laufey Björnsdóttir náði að minnka muninn fyrir Fylki á uppbótartíma. Lokatölur á Þórsvelli, 3:1 sigur Þórs/KA.

Nýjast