Þór og KA mætast á Þórsvelli í kvöld

Það verður væntanlega eldfimt andrúmsloftið á Þórsvelli kl. 18:00 í kvöld þegar nágrannaliðin Þór og KA mætast í 20. umferð Íslandsmótsins í 1. deild karla í knattspyrnu. Mikið er undir fyrir heimamenn í leiknum sem einfaldlega verða að vinna í kvöld. KA-menn sigla lygnan sjó um miðja deild, hafa 24 stig í sjöunda sæti deildarinnar og sætið í deildinni nánast tryggt. Þórsarar eru í öðrum sporum, en þeir freista þess að komast í úrvalsdeildina að nýju, í fyrsta sinn síðan árið 2002. Þór hefur 37 stig í þriðja sæti deildarinnar, tveimur stigum frá toppliðunum Leikni og Víkingi R.

„Við erum mjög spenntir fyrir leiknum. Við þurfum níu stig úr þessum þremur leikjum ef við ætlum okkur upp og þetta er bara úrslitaleikur fyrir okkur,” segir Þorsteinn Ingason fyrirliði Þórs.

Fyrirliði KA, markvörðurinn snjalli Sandor Matus, býst við erfiðum leik í kvöld. „Þórsarar eru nú í þeirri stöðu að geta farið upp í úrvalsdeild og mæta eflaust dýrvitlausir til leiks. Það gerum við hins vegar líka og ætlum ekki að gera þeim auðvelt fyrir,” segir Sandor.

Nánar í Vikudegi í dag.

Nýjast