Heil umferð var í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Þórsarar mættu Haukum á Akureyrarvelli í kveðjuleik Hlyns Birgissonar sem lék þarna sinn síðasta leik á 24 ára ferli. Leiknum lauk með jafnftefli þar sem hvort lið skoraði eitt mark. Á sama tíma tapaði KA 0-1 fyrir Stjörnunni í Garðabænum.
Fyrri hálfleikur á Akureyrarvelli var frekar bragdaufur og fátt um góð marktækifæri, bæði lið ógnuðu þó nokkuð með langskotum og þá sér í lagi Haukarnir en staðan markalaus þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik.
Síðari hálfleikur var einungis nokkurra mínútna gamall þegar Haukar komust yfir með marki Hilmars Hrafns Emilssonar sem hafði sloppið einn í gegnum vörn Þórs. Rétt áður höfðu Þórsarar klúðrað dauðafæri þegar að markvörður Hauka varði vel frá Ármanni Pétri Ævarssyni inn á vítateig. Þórsarar hresstust eftir markið og smám saman þyngdist sókn þeirra. Þeir skoruðu meðal annars tvö mörk sem réttilega voru dæmd af vegna rangstöðu, auk þess sem markvörður Hauka þurfti í það minnsta tvisvar að taka á honum stóra sínum. Á 78 mínútu brotnaði svo loks ísinn þegar að Jóhann Helgi Hannesson skoraði með góðu skoti í fjærhornið úr frekar þröngri stöðu utarlega í vítategnum. Eftir markið vöknuðu Haukarnir aðeins til lífsins og bæði lið áttu sína möguleika til að klára leikinn en allt kom fyrir ekki og lokatölur því 1-1.
Í Garðabæ mættust KA og Stjarnan. Mikil spenna var fyrir leikinn í herbúðum Stjörnunnar enda liðið í harðri baráttu við Selfyssinga um sæti í Landbankdadeildinni að ári. KA menn sigla hins vegar lygnan sjó í fjórða sæti deildarinnar. Stjörnupiltar voru töluvert sterkari aðilinn í leiknum en gekk samt sem áður nokkuð illa að skapa sér marktækifæri gegn KA mönnum sem vörðust vel og beittu skyndisóknum.
Guðni Rúnar Helgason átti ágætis tækifæri í fyrri hálfleik fyrir Stjörnuna en brást bogalistin. Í síðari hálfleik átti Þorvaldur Árnason hörkuskot sem Matus Sandor í marki KA varði í horn. Eina mark leiksins kom aftur á móti ekki fyrr en á síðustu mínútu leiksins, Daníel Laxdal slapp þá einn í gegnum vörn KA og lagði boltann snyrtilega í netið framhjá Sandor við gríðarlegan fögnuð heimamanna. Leiknum lauk svo skömmu síðar með 1-0 sigri Stjörnunnar sem þar með er komin í 2. sæti deildarinnar en Selfoss sem var í öðru sætinu tapaði á sama tíma gegn Fjarðbyggð 1-2.