Þórsarar léku í kvöld gegn Stjörnunni í Poweradebikarnum í körfubolta karla í Höllinni. Poweradebikarinn er nokkurskonar upphitunarmót fyrir Íslandsmótið þar sem er keppt með útsláttarfyrirkomulagi.
Leikurinn var jafn og spennandi nær allan tímann, Stjarnan hafði frumkvæði framan af leik en Þórsarar misstu þá aldrei of langt frá sér. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 30-28 fyrir Stjörnunni en þegar að öðrum leikhluta var lokið höfðu Þórsarar náð forystunni 56-55.
Eins og tölurnar gefa til kynna var lítið um varnir hjá liðunum og mikið skorað. Nokkuð sem hentaði liði Stjörnunnar ágætlega þar sem þeirra lið er mun sterkara sóknarlega en varnarlega.
Í síðari hálfleik löguðu Þórsarar þennan þátt í leik sínum, þ.e. varnarleikinn, enda stóð ekki á því að þeir náðu fljótlega öruggri forystu. Eftir þriðja leikhluta höfðu þeir sex stiga forskot og á tímabili í fjórða leikhluta var munurinn orðin 11 stig. Kæruleysi Þórsara á síðustu mínútunni setti nokkra spennu í leikinn en þá náði Stjarnan að minnka muninn í fjögur stig þegar 20 sekúndur voru eftir. Lengra komust þeir hins vegar ekki og Þórsarar innbyrtu sigur 98-94.