Það verður sannkallaður Þórsslagur í kvöld á Íslandsmótinu í 1. deild karla í körfubolta er Þór frá Akureyri sækir Þór Þorlákshöfn heim kl. 19:15. Um toppslag er að ræða en Þór Þorlákshöfn vermir toppsætið með 14 stig en norðanmenn hafa 12 stig í öðru sæti deildarinnar. Með sigri geta því Akureyringar jafnað Þorlákshöfn að stigum.
„Þetta er aðalleikurinn,” segir Bjarki Ármann Oddsson fyrirliði Þórs frá Akureyri. „Það má alveg segja að þetta sé stærsti leikur okkar á tímabilinu hingað til. Þetta er algjör lykilleikur fyrir okkur og það væri fínt að vinna og vera á toppnum yfir jólin. Það er klárlega markmiðið,” segir Bjarki, en nánar er rætt við hann í Vikudegi í dag.