„Rekstur grunnskólans er stærsta rekstarverkefnið í sveitarfélaginu, en skipulagsmálin eru einnig fyrirferðarmikil í þessu sveitarfélagi. Nú þurfum við líka að yfirfara fjárhagsáætlun og þá eru alltaf einhverjar framkvæmdir í gangi yfir sumarmánuðina, þannig að það eru næg verkefni fyrir hendi," segir Jón Hrói.
„Stóra verkefnið fyrsta kastið er að setja sig inn í málin, læra og kynnast fólkinu í sveitarfélaginu. Ég hef ekki áður starfað sem sveitarstjóri þannig að það þarf að læra ýmislegt, en mér líst vel á og hlakka til að koma til starfa hér, þetta sveitarfélag er af hæfilegri stærð," segir hann en um 400 manns búa í Svalbarðsstrandarhreppi.
Jón Hrói er fæddur árið 1972 í Hanover í Þýskalandi. Hann ólst upp á Akureyri og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1992. Hann lauk BA-prófi í stjórnsýslufræði frá Árósarháskóla árið 2000 og meistaranámi frá sama skóla árið 2004. Hann starfaði hjá Arla Food að ýmsum skipulagstengdum verkefninum og við stjórnsýsluráðgjöf hjá ParX frá árinu 2004. Frá því í byrjun árs 2007 hefur hann verið þróunarstjóri í Fjallabyggð. Sambýliskona hans er Anna Louise Júlíusdóttir og eiga þau eina dóttur.