„Það er einfaldlega brekka sem ekki sér fyrir endann á“

Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags.
Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags.

Greinin birtist fyrst í prentútgáfu Vikublaðsins sem kom út á fimmtudag.

 

Eins og alkunna er tilkynnti PCC BakkiSilicon hf. í vor um tímabundna rekstrarstöðvun kísilmálmverksmiðju sinnar á Bakka við Húsavík. Ákvörðunin, sem tók gildi frá og með miðjum júlí, hefur haft djúpstæð áhrif á atvinnulíf og samfélag í Norðurþingi. Um 80 starfsmönnum var sagt upp í fyrstu lotu, og síðar bættust fleiri við. Ástæður stöðvunarinnar eru sagðar vera erfiðleikar á alþjóðamörkuðum, niðurgreiddur innflutningur á kísilmálmi frá Kína og áhrif tollastríðs.

Aðalstein Á. Baldursson, formaður Framsýnar, stéttarfélags segir í samtali við Vikublaðið að staðan sé grafalvarleg og kallar eftir betri áheyrn stjórnvalda.

Blaðamaður Vikublaðsins sló á þráðinn til Aðalsteins á mánudagskvöld en þá var hann að undirbúa fund með hagaðilum sem hóst eftir að blaðið fór í prentun. Það var þungt hljóðið í formanni Framsýnar vegna stöðunnar í atvinnumálum í Norðurþingi vegna vinnslustöðvunarinnar á Bakka.

Erfið staða

„Það er einfaldlega brekka sem ekki sér fyrir endann á, því miður. Þess vegna höfum við boðað til fundar á morgun [þriðjudag] þar sem Kári Marís Guðmundsson, forstjóri PCC verður gestur, og við ætlum einnig að ræða lífeyrissjóðsmál og stöðuna almennt. En aðalefnið er staðan á Bakka og framtíðin. Við viljum vekja athygli á alvarleika málsins,“ sagði Aðalsteinn og bætti við að brýnt værir koma þeim skilaboðum skýrt á framfæri hversu alvarleg staðan er.

„Það þarf að koma þessu á framfæri alls staðar. Ég hef kallað eftir því að þingmenn kjördæmisins vakni. Ég hef boðist til að funda með þeim og fara yfir málin, en enginn hefur þegið það. Á Bakka eru um 200 manns sem hafa misst vinnuna – beint og óbeint því þetta eru líka afleidd störf sem hverfa,“ segir Aðalsteinn af þunga.

Gríðarlegt tap fyrir sveitarfélagið

„Ástandið er grafalvarlegt og þögnin sem maður verður var við er pínleg. Ég er hins vegar ánægður með að ég er að fá hringingar frá fólki víða að sem er að stappa í okkur stálinu og hvetja til þess að við berjumst fyrir því að PCC haldi áfram,“ segir formaðurinn og bætir við að í sumar hafi hann fundað með nefnd á vegum stjórnvalda um stöðuna.

„Ég fundaði með nefnd á vegum stjórnvalda sem á að skila skýrslu um stöðuna í október. Á þeim fundi var meðal annars farið yfir áhrifin sem þessi stöðvun hefur á samfélagið. Þegar þessi fundur fór fram voru 133 greiðendur til Framsýnar frá PCC, Ef ég væri í sveitarstjórn Norðurþings hefði ég verulegar áhyggjur – PCC er langstærsti greiðandi til Framsýnar og einnig til sveitarfélagsins,“ segir Aðalsteinn.

Fólk að flytjast á brott

Erum við að horfa fram á fólksfækkun vegna stöðunnar á Bakka?

„Já, við sjáum það nú þegar, sérstaklega fólk á leigumarkaði sem hefur misst vinnuna og sér ekki fram á að fá aðra vinnu á svæðinu. Það er ótti í fólki og við reynum að gera okkar besta til að þjónusta okkar skjólstæðinga,“ svarar Aðalsteinn sem á erfitt með að sjá ljós í enda ganganna þrátt fyrir að vera yfirleitt bjartsýnn.

„Núna í augnablikinu er ekki að sjá nema erfiða mánuði fram undan. Ég vona að fundurinn [á þriðjudag sl.] verði upplýsandi og að við förum yfir hvað hægt er að gera. PCC borgaði um 3,7 milljarða í skatta og gjöld á síðasta ári en það má ekki gleyma því heldur að þetta er góður vinnustaður með fjölbreytt störf.“

Stjórnvöld þurfi að koma að málinu

„Þó þetta sé högg fyrir samfélagið og sveitarfélagið, þá er þetta fyrst og fremst högg fyrir einstaklingana sem missa vinnuna. Margir hafa fest kaup á húsnæði og komið sér fyrir. Við erum í öldudal, það verður bara að segjast eins og er en við verðum að vinna okkur út úr þessu. Við gerum það ekki ein og sér. Á meðan stjórnvöld horfa upp á að fyrirtæki kaupi málm frá Kína í skjóli fríverslunarsamnings. Það er verið að kaupa málm frá verksmiðjum þar sem mannréttindi og launakjör eru ekki í lagi. Þá náttúrlega ef menn ætla að taka þátt í svona þá er ekki von á góðu,“ segir Aðalsteinn alvarlegur og bendir á að Pcc geti auðveldlega annað þessari eftirspurn.

„Annar ofninn af tveimur úti á Bakka gæti sinnt eftirspurninni frá Íslandi, en það er verið að kaupa þessa málma frá Kína til frekari vinnslu og þar er ekki græn orka,- þar eru bara kol og annar óþrifnaður. Svo erum við alltaf að reikna eitthvað kolefnisspor,“ segir hann gáttaður. ,,Þannig að það er ekki bjart útlitið en við verðum að treysta á það að menn leggist á árarnar og leysi þetta,“ segir Aðalsteinn Á. Baldursson að lokum.

Félagsfundur Framsýnar ályktaði eftirfarandi á fundinum sem vísað er til í viðtalinu:

Ályktun
Um málefni PCC á Bakka

„Félagsfundur Framsýnar stéttarfélags, haldinn 30. september 2025, lýsir yfir þungum áhyggjum af atvinnumálum á félagssvæðinu í ljósi þess að PCC á Bakka hefur sagt upp flestum starfsmönnum fyrirtækisins.

Framsýn kallar eftir aðkomu stjórnvalda að málinu þegar í stað með raunhæfum aðgerðum sem miði að því að bæta rekstrarumhverfi PCC svo framleiðsla geti hafist á ný hjá fyrirtækinu.

Ákvörðun um að stöðva framleiðsluna byggir ekki síst á erfiðleikum á mörkuðum fyrir kísilmálm og raskana á alþjóðamörkuðum í kjölfar tollastríðs. Þá bætir fríverslunarsamningur Íslands við Kína ekki samkeppnisstöðu PCC við innfluttan málm til frekari vinnslu á Íslandi.

Áhrifin af lokun PCC eru þegar farin að hafa veruleg áhrif enda um að ræða fjölmennan vinnustað auk þess sem fjöldi undirverktaka hefur treyst á starfsemi fyrirtækisins. Hátt í 200 störf tengjast beint starfsemi PCC að meðtöldum undirverktökum, það er fyrir utan afleidd störf sem telja tugi starfa til viðbótar. Þá hefur PCC lagt mikla áherslu á að skipta við verslunar- og þjónustuaðila í nærsamfélaginu auk þess að styðja myndarlega við æskulýðs- og íþróttastarfsemi á Húsavík. Á árinu 2024 varði fyrirtækið 3,7 milljörðum króna í laun, gjöld, skatta og kaup á þjónustu á svæðinu.

Fyrir liggur að rekstrarörðuleikar PCC koma til með að hafa víðtæk áhrif á getu sveitarfélagsins Norðurþings til að standa undir sínum lögbundnu skyldum gangvart íbúum vegna minnkandi tekna af starfsemi fyrirtækisins er tengist ekki síst útsvarstekjum starfsmanna, fasteigna- og hafnargjöldum.

Að mati Framsýnar stéttarfélags kemur ekkert annað til greina en að hlutaðeigandi aðilar sem tengjast starfseminni á Bakka s.s. eigendur PCC, stjórnvöld, stjórnendur Norðurþings, Landsvirkjun, Landsnet og stéttarfélög starfsmanna myndi breiðfylkingu um að tryggja frekari starfsemi PCC á Bakka til framtíðar öllum til hagsbóta. Stéttarfélögin eru reiðubúin í slíka vinnu enda miklir hagsmunir í húfi.“

Nýjast