Talið að um 700-750 hundar séu á Akureyri

Endurskoðuð samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað var tekin til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í vikunni. Fram kom í máli Odds Helga Halldórssonar formanns bæjarráðs, að um 530-540 hundar séu skráðir í bænum. Þá er talið að um 30% til viðbótar séu óskráðir og því eru um 700-750 hundar á Akureyri.  

Hundahald er heimilt í Akureyrarkaupstað með þeim takmörkunum sem fram koma í samþykkt um hundahald. Í Grímsey er hundahald hins vegar alfarið bannað en kosið var um málið meðal íbúa eyjarinnar samhliða sveitarstjórnarkosningunum í vor. Í endurskoðaðri samþykkt kemur m.a. fram að greiða þarf leyfisgjald þegar hundur er skráður og svo eftirlitsgjald árlega. Hundaeigendum er skylt að hreinsa upp saur eftir hunda sína og lausaganga hunda stranglega bönnuð í Hrísey. Þá verður óheimilt að fara með hunda á almennar samkomur í bænum, s.s. 1. maí, 17. júní, verslunarmannahelgi og Akureyrarvöku.

Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi Bæjarlistans sagðist nokkuð sáttur við þessa endurskoðun á samþykkt um hundahald. Sigurður sagði að einnig væri verið að vinna að endurskoðun á reglugerð um kattahald og hann sagðist vilja sá þar inni að lausaganga katta væri bönnuð á Akureyri og að reglugerðin verði í samræmi við þá reglugerð um hundahald sem var til umræðu á fundinum.

Bæjarstjórn samþykkti með 11 samhljóða atkvæðum að vísa Samþykkt um hundahald í Akureyrarkaupstað til frekari yfirferðar í framkvæmdaráði og síðari umræðu í bæjarstjórn.

Nýjast