Dorrit Moussaieff, forsetafrú, veitti fyrsta eintakinu af bleiku slaufunni viðtöku í höfuðstöðvum Krabbameinsfélags Íslands í dag. Jafnframt heimsótti forsetafrúin Leitarstöð Krabbameinsfélagsins og skoðaði nýjan stafrænan tækjabúnað leitarstöðvarinnar sem skipta mun sköpum við nýgreiningu á krabbameini í brjósti.
„Allur ágóði af sölu á bleiku slaufunni verður notaður til að ljúka greiðslu á nýju, stafrænu röntgentækjunum og öðrum búnaði til brjóstakrabbameinsleitar sem mun gera okkur kleift að bjarga enn fleiri mannslífum," segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands. Nýi stafræni tækjabúnaðurinn er mikil tæknibylting og eitt stærsta verkefni Krabbameinsfélagsins í 57 ára sögu þess, en alls nemur kostnaður við tæki, forrit, uppsetningu og þjálfun starfsfólks sem stjórnar nýja búnaðinum ríflega 600 milljónum króna. Töluverðir fjármunir hafa safnast upp í kaupin nú þegar frá örlátum gefendum og bindur forstjóri Krabbameinsfélagsins vonir við að salan á bleiku slaufunni dugi til að brúa það sem upp á vantar. „Við vonumst til að ljúka allri fjármögnun með þessu átaki. Til að það takist þurfum við að selja 40.000 slaufur," segir Guðrún Agnarsdóttir. Alls hafa verið fest kaup á 5 starfrænum röntgentækjum og eru þrjú staðsett í leitarstöð Krabbameinsfélagsins í Skógarhlíð, eitt á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri en fimmta tækið er færanlegt og verður notað í skoðunarferðum í aðra landshluta. Stafrænu leitartækin eru mjög viðkvæm í flutningi og því hefur heilbrigðistækni-fyrirtækið Raförninn hannað sérstakan hitastýrðan flutnings- og ferlibúnað sem gerir kleift að ferðast með tækið um landið. Hér er um að ræða séríslenska lausn sem gera má ráð fyrir að framleiðendur tækjanna muni innleiða í eigin framleiðslu.
FRÁBÆR ÁRANGUR Í BARÁTTU GEGN BRJÓSTAKRABBAMEINI
„Með nýju tækjunum er hægt að framkvæma mun nákvæmari greiningu en áður og þau auðvelda leit í þéttum brjóstvef og brjóstum yngri kvenna. Það verður því auðveldara að greina krabbamein á frumstigi en áður," segir forstjóri Krabbameinsfélagsins. „Árangur okkar í baráttunni gegn brjóstakrabbameini er einn sá besti í heimi. Við erum stolt af þeim árangri og viljum gera enn betur. Í dag eru 90% kvenna sem greinst hafa með brjóstakrabbamein á Íslandi enn á lífi 5 árum eftir greiningu. Ein af hverjum tíu konum greinist með brjóstakrabbamein einhvern tíma á ævinni og því er til mikils að vinna, en við gerum ráð fyrir að allar konur á aldrinum 40-69 ára komi til okkar í myndatöku á tveggja ára fresti," segir Guðrún Agnarsdóttir og bætir því við að í nýju tækjunum sé léttari pressa lögð á brjóstið en var í þeim gömlu og því sé um minni óþægindi að ræða fyrir konurnar. Hún ítrekar einnig að konur eldri en 69 ára séu boðnar velkomnar í leitina.
Bleika slaufan er með nokkuð öðru sniði en áður því hún er nú í fyrsta sinn hönnuð af skartgripahönnuði og því mun eigulegri gripur en áður. Það er Hendrikka Waage sem hannar slaufuna að þessu sinni en hún hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir skartgripahönnun sína. „Mér finnst það frábært tækifæri að fá að taka þátt í þessu verkefni og að endurhanna þessa víðfrægu slaufu. Baráttan gegn brjóstakrabbameini er barátta sem kemur okkur öllum við og því vildi ég leggja mitt lóð á vogarskálarnar til að söfnunin gangi sem best," segir Hendrikka, sem flaug sérstaklega til Íslands til að vera viðstödd afhendingu bleiku slaufunnar í dag. Skartgripir Hendrikku Waage fást um allan heim, allt frá Japan til Íslands, og hafa vörur hennar birst í Vogue, Elle, Hello og The Times, auk annarra þekktra tímarita og dagblaða.
SÖLUSTAÐIR BLEIKU SLAUFUNNAR
Bleika slaufan kostar 1.000 krónur og dagana 1. - 15. október verður hægt að kaupa hana hjá eftirtöldum söluaðilum sem selja slaufuna án álagningar.
Kaffitár
Te & Kaffi
Eymundsson
Frumherji
Samkaup
Lyfja
Lyf og heilsa
Lyfjaval
Hreyfill
Sértök skartútgáfa af bleiku slaufunni, hönnuð af Hendrikku Waage, verður einnig seld til stuðnings átaki Krabbameinsfélagins. Hún kostar 5.900 krónur og verður einungis til sölu hjá Krabbameinsfélaginu, í Saga Boutique og hjá söluaðilum Hendrikku Waage á Íslandi sem eru: Leonard Kringlunni, Leonard Duty Free, Icelandair,Hilton hotel og Halldór Ólafsson a Akureyri.
Kaupþing er aðalstyrktaraðili Krabbameinsfélags Íslands.