Sýning á leikfangasafni Guðbjargar í Friðbjarnarhúsi

Friðbjarnarhús í Innbænum á Akureyri fær nýtt hlutverk næstkomandi sunnudag, á íslenska safnadaginn, en þann dag kl. 14.00 verður opnuð þar sýning á leikfangasafni myndlistakonunnar Guðbjargar Ringsted. Þar verða til sýnis dúkkur af öllum stærðum og gerðum, dúkkuföt, dúkkurúm, vagnar, bangsar af ýmsum gerðum, leikfangabílar og margt fleira.  

Gamlar dúkkur hafa lengi verið í uppáhaldi hjá Guðbjörgu og þær spila því stórt hlutverk í sýningunni. Um er að ræða samstarfsverkefni Guðbjargar, Minjasafnsins á Akureyri og Akureyrarstofu. Minjasafnið lánar húsgögnin á sýningunni og verður auk þess með safnakennslu í húsinu í vetur en Akureyrarstofa hefur umsjón með húsinu og hefur aðstoðað við uppsetningu sýningarinnar. Góðtemplarareglan hefur á síðustu árum unnið ötullega að því að gera Friðbjarnarhús upp og fyrr á árinu færði reglan Akureyrarbæ húsið að gjöf. Sýningin verður opin fram til 15. september frá kl. 10-17 og verður Guðbjörg sjálf á staðnum gestum til halds og trausts.

Nýjast